Fótbolti

Tottenham búið að skipuleggja sigurskrúðgöngu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vannstu titil ef þú fórst ekki með hann í bíltúr um bæinn ofan á rútu?
Vannstu titil ef þú fórst ekki með hann í bíltúr um bæinn ofan á rútu? vísir/getty
Tottenham hræðist greinilega ekki hið margumtalaða „jinx“ og er búið að skipuleggja fagnaðarlæti og skrúðgöngu ef liðið vinnur Meistaradeild Evrópu.

Það skapaðist nokkur umræða í gær um það að Selfyssingar hefðu gert allt til þess að koma í veg fyrir að þeir yrðu Íslandsmeistarar í handbolta. Búið var að panta sérmerkta Íslandsmeistaraboli, það var búið að skipuleggja flugeldasýningu, fá tónlistarmann í fagnaðarlætin og þar eftir götunum en liðið átti þó eftir að tryggja sigurinn.

Strákarnir frá Selfossi gefa lítið í mýtur og hjátrú um jinx og völtuðu yfir Hauka og fögnuðu vel í Íslandsmeistarabolunum sínum í gær. Strákarnir í Tottenham virðast ekki trúa á ill álög heldur því þeir eru búnir að skipuleggja fögnuð ef liðið vinnur Meistaradeild Evrópu.

Tottenham spilar við Liverpool í úrslitaleiknum í Madríd laugardagskvöldið 1. júní. Daginn eftir verður liðið komið aftur til Lundúna og þá skal farið í rútuferð um bæinn með bikar á lofti eins og vani er orðinn á að meistaralið geri.

Félagið er ekki bara búið að skipuleggja fagnaðarlætin innan félagsins heldur gekk það svo langt að tilkynna dagskrána á heimasíðu sinni í dag.

„Við búumst við því að rútuferðin taki um klukkutíma. Svið verður sett upp fyrir framan heimavöllinn þar sem leikmenn og þjálfarateymi mæta með bikarinn,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Það mun svo koma í ljós hvort þessar áætlanir Tottenham hafi sett ill álög á liðið eða kannski er allt slíkt á baki brotið eftir sigur Selfyssinga í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×