Handbolti

Egill Magnússon samdi við FH

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Egill Magnússon með formanninum Ásgeiri Jónssyni og Sigursteini Arndal þjálfara.
Egill Magnússon með formanninum Ásgeiri Jónssyni og Sigursteini Arndal þjálfara. Vísir/Henry
Bikarmeistarar FH-inga eru byrjaðir að safna liði fyrir næsta tímabil og sömdu í dag við eina bestu skyttuna í Olís deildinni.

Egill Magnússon skrifaði í dag undir þriggja ára samning við FH en hann hefur spilað með Stjörnunni síðustu tvö ár og hafði áður reynt fyrir sér í atvinnumennsku í Danmörku.

FH-ingar héldu blaðamannafund í Kaplakrika þar sem þeir kynntu nýjasta liðsmanninn. Sigursteinn Arndal er tekinn við sem þjálfari FH-liðsins af Halldóri Jóhanni Sigfússyni. 

FH tilkynnti líka að liðið væri búið að gera fjögurra ára samning við íþróttavöruframleiðandann Puma. Bose verður framan á búningnum sem er annars alhvítur.

Egill er 23 ára gömul og 200 sentímetra há vinstri skytta sem er uppalinn í Garðabænum. Hann skoraði 110 mörk í 17 leikjum með Stjörnunni í deildarkeppninni en missti af úrslitakeppninni vegna meiðsla.

Egill sló í gegn með Stjörnunni átján ára gamall tímabilið 2014 til 2015 og fór í framhaldinu til danska félagsins Team Tvis Holstebro. Hann hefur spilað með öllum unglingalandsliðum Íslands.

Hann kom aftur heim haustið 2017 og hefur spilað með Stjörnuliðinu undanfarin tvö tímabil.

Egill var með 5,8 mörk að meðaltali í leik 2017-18 og skoraði 6,5 mörk í leik á þessu tímabili. Á báðum tímabilum var hann í hópi markahæstu manna deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×