Á meðal þess sem tekið er fyrir í skýrslunni eru breytingar á komum ferðamanna og verðlagi. Þannig dvelji ferðamenn hér í styttri tíma en áður og þá var Ísland dýrasti áfangastaður í Evrópu árið 2017. Greiddi ferðamaðurinn nær tvöfalt hærra verð, 84%, hér en að meðaltali innan ESB.
Þá sækja asískir og breskir ferðamenn í dýrari gistingu á meðan aðrir nýta sér í ríkari mæli ódýrari gistingu. Tæplega helmingur fyrirtækja greinarinnar skilar tapi og er hlutfall fyrirtækja í taprekstri hæst á Vesturlandi og á Vestfjörðum.
Hótelherbergjum fjölgar þrátt fyrir að ferðamönnum fækki
Greining Íslandsbanka áætlar jafnframt að fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu verði um 1.300 til og með árinu 2021. Hlutfallsleg fjölgun hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu er um 8% að meðaltali á hverju ári út spátímabilið.Áfram stefnir í talsverða fjölgun hótelherbergja á svæðinu þrátt fyrir að útlit sé fyrir að ferðamönnum muni fækka á árinu. Að öðru óbreyttu má því gera ráð fyrir að nýting hótela á höfuðborgarsvæðinu muni verða lægri á þessu ári en á síðastliðnu ári að jafnaði.
Hér má nálgast skýrslu Íslandsbanka í heild sinni.