Nokkrum dögum eftir árásina var greint frá því að ríkislögreglustjóri ynni að því að kortleggja ferðir Tarrant hér á landi þar sem talið var að Ísland hefði verið einn af viðkomustöðum hans á Evrópureisu árið 2017.
Í 74 blaðsíðna stefnuyfirlýsingu Tarrant segir hann að hvergi sé að finna skjól lengur, ekki einu sinni í löndum á borð við Ísland, Pólland, Nýja-Sjáland, Argentínu og Úkraínu. Þetta viti hann vegna þess að hann hafi verið í þessum löndum.

„Hann virðist hafa á einhverju tímabili ferðast um heiminn og þar á meðal til Íslands,“ segir Ásgeir.
Hann segir aðspurður ekkert hafa komið út úr skoðun ríkislögreglustjóra á því hvort hann hafi verið að hitta einhverja tiltekna aðila hér á landi.
Þá segir Ásgeir að ríkislögreglustjóri hafi sent nýsjálenskum yfirvöldum upplýsingar um ferðir Tarrant.
51 lést í hryðjuverkaárás Tarrant á moskurnar tvær í Christchurch. Hann hefur verið ákærður fyrir fimmtíu morð og þá særði hann fimmtíu manns til viðbótar.