Stórhertoginn Jean, fyrrverandi þjóðhöfðingi Lúxemborgar, er látinn, 98 ára að aldri. Frá þessu greindi sonur hans Henri í yfirlýsingu í morgun.
Stórhertoginn var þjóðhöfðingi Lúxemborgar í um 36 ár. Hann sat á valdastóli frá árinu 1964 og þar til að hann lét af völdum árið 2000. Sonur hans Henri tók þá við stöðunni. Jean var nýverið fluttur á sjúkrahús vegna sýkingar í lungum og andaðist í faðmi fjölskyldu sinnar, að því er fram kemur í yfirlýsingunni.
Í valdatíð Jean umbreyttist Lúxemborg í eina af helstu alþjóðlegu fjármálamiðstöðvum heimsins.
Hann gekk að eiga hina belgísku Joséphine-Charlotte árið 1953 og eignuðust þau fimm börn.
Staða stórhertoga í Lúxemborg er fyrst og fremst táknrænt embætti og fer sá sem embættinu gegnir með lítil völd.
Fyrrverandi þjóðhöfðingi Lúxemborgar látinn
Atli Ísleifsson skrifar
