Luis Suárez hefur ekki skorað mark á útivelli í Meistaradeild Evrópu síðan í september 2015, eða í 1302 daga.
Síðasta mark Suárez á útivelli í Meistaradeildinni kom í 1-1 jafntefli Barcelona og Roma á Ólympíuleikvanginum í Róm 16. september 2015. Síðan þá eru liðin rúm þrjú og hálft ár.
Frá leiknum í Róm hefur Suárez skorað ellefu Meistaradeildarmörk sem öll hafa komið á Nývangi í Barcelona.
Úrúgvæinn hefur verið kaldur í Meistaradeildinni undanfarin tvö tímabil. Í fyrra skoraði hann aðeins eitt mark og hann er ekki kominn með mark í Meistaradeildinni í ár.
Barcelona sækir Manchester United heim í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Suárez verður væntanlega á sínum stað í byrjunarliði Börsunga sem hafa ekki komist í undanúrslit Meistaradeildarinnar síðan 2015. Suárez lék sjö leiki gegn United þegar hann var í herbúðum Liverpool og skoraði tvö mörk.
Þrátt fyrir markaþurrð í Meistaradeildinni hefur Suárez skorað grimmt fyrir Barcelona að undanförnu. Í síðustu níu leikjum Spánarmeistaranna hefur úrúgvæski framherjinn skorað sjö mörk. Hann er næstmarkahæstur í spænsku deildinni með 20 mörk, 13 mörkum á eftir samherja sínum, Lionel Messi.
Leikurinn Manchester United og Barcelona hefst klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leiki kvöldsins í Meistaradeildinni hefst klukkan 18:30 á Stöð 2 Sport.
