Ajax tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar með fræknum útisigri, 1-2, á Juventus í gær. De Ligt skoraði sigurmarkið um miðbik seinni hálfleiks. Hann skallaði þá hornspyrnu Lasse Schöne í netið.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ajax kemst í undanúrslit Meistaradeildarinnar frá 1997. Þá voru enn tvö ár þar til De Ligt fæddist. Hann kom í heiminn 12. ágúst 1999 og er því aðeins 19 ára. Þrátt fyrir það er hann fyrirliði Ajax og búinn að leika 15 A-landsleiki fyrir Holland.
Hinn markaskorari Ajax í leiknum gegn Juventus, Donny van de Beek, fæddist á milli leikja Ajax gegn Juventus í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í apríl 1997. Juventus vann einvígið, 6-2 samanlagt.
Ajax varð Evrópumeistari 1995 og tapaði úrslitaleiknum fyrir Juventus ári síðar. Liðið komst í undanúrslit 1997 en þá var farið að kvarnast úr Evrópumeistaraliðinu og leikmenn á borð við Edgar Davids, Patrick Kluivert og Clarence Seedorf horfnir á braut. Eftir tímabilið 1996-97 hætti Louis van Gaal með Ajax og tók við Barcelona.
Fastlega er búist við því að stærstu lið Evrópu tíni helstu skrautfjaðrirnar af Ajax í sumar. Frenkie De Jong er þegar búinn að semja við Barcelona og allar líkur eru á því að De Ligt sé einnig á förum.
Í undanúrslitum Meistaradeildarinnar mætir Ajax annað hvort Manchester City eða Tottenham.