Í tilkynningu á Facebook-síðu PCC á Bakka þar sem greint er frá ákvörðuninni kemur fram að framleiðslan hafi ekki verið eftir væntingum í vetur. Kuldi og snjómagn hafi haft mikil áhrif á hráefni verksmiðjunnar sem hafi haft keðjuverkandi áhrif á rykhreinsivirkið.
Talið hafði verið að með hækkandi sól myndu stíflur í hreinsivirkinu hætta að myndast. Báðir ofnar hafi verið í gangi í síðustu viku en eftir nokkurra daga rekstur hafi rykhreinsivirkið stíflast aftur þannig að slökkva þurfti á öðrum þeirra.
Tilkynnt var um það í mars að Jökull Gunnarsson, forstjóri verksmiðjunnar, ætlaði að láta af starfi í þessum mánuði. Rúnar Sigurpálsson, framkvæmdastjóri átti að taka við af Jökli sem var ráðinn forstjóri í haust. Neitaði Jökull því að afsögn hans hefði eitthvað með bilanir sem hefðu plagað verksmiðjuna að gera.