Umfjöllun og viðtöl: Grótta 30-33 Afturelding | Góður sigur gestanna í lokaleiknum

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
vísir/daníel þór
Grótta spilaði sinn síðasta leik í Olís-deild karla í bili þegar liðið tók á móti Aftureldingu. Eftir góðan fyrri hálfleik duttu heimamenn niður og gestirnir gengu á lagið og unnu að lokum góðan 3 marka sigur, 33-30.

 

Það var ljóst frá byrjun að Grótta vildi enda þetta erfiða tímabil á sigri. Þeir byrjuðu vel og komu á óvart með því að spila 7 á 6 allan leikinn. Það gekk vel og þeir leiddu 10-7 eftir 13 mínútna leik.

 

Þá tóku Mosfellingar góðan kafla þar sem þeir breyttu stöðunni í 11-12 en Gróttumenn héldu alltaf áfram og náðu aftur forystunni og leiddu í hálfleik, 16-14. Virkilega skemmtilegur og hraður fyrri hálfleikur í Hertz höllinni.

 

Það tók gestina ekki langan tíma að jafna leikinn í síðari hálfleik og eftir að þeir höfðu jafnað á 35.mínútu voru þeir ekki lengi að byggja upp forskot sem Grótta átti erfitt með að ná niður. 

 

Einar Jónsson þjálfari Gróttu tók leikhlé í stöðunni 22-28 fyrir gestina þegar aðeins meira en 10 mínútur voru eftir og freistaði þess að kveikja í sínum mönnum.

 

Það gekk því miður ekki nógu vel en þeir náðu ekki að minnka muninn nema í 3 mörk en lengra komust þeir ekki. Afturelding sigldi þessu heim og leiknum lauk með góðum sigri þeirra, 30-33.

 

Af hverju vann Afturelding?

Einfaldlega betra liðið og í betra standi. Þeir voru í vandræðum í fyrri hálfleik en náðu að herða vörnina í þeim síðari og skoruðu þá ófá mörk í autt markið.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá gestunum var Finnur Ingi Stefánsson markahæstur með 8 mörk þar af 4 úr vítum. Elvar Ásgeirsson og Tumi Steinn Rúnarsson komu þar á eftir með 6 mörk hvor. Pálmar Pétursson var fínn í markinu með 36% markvörslu og 2 mörk að auki.

 

Hjá heimamönnum var Magnús Öder Einarsson markahæstur með 5 mörk en 4 þeirra komu á seinustu 8 mínútum leiksins. Hannes Grimm var fínn á línunni með 4 mörk úr 5 skotum. Ísak Arnar Kolbeins átti góða innkomu í markið með 4 varða af 9 eða 44% markvörslu.

 

Hvað gekk illa?

Í síðari hálfleik gekk sóknarleikur Gróttu ekki nógu vel. Þeir töpuðu boltanum alltof oft og Afturelding refsaði þeim með því að skora í autt markið. Hinum megin átti Emils Kurzemenieks ekki góðan leik en hann skoraði ekki mark úr 1 skoti og tapaði einhverjum 4 boltum í sókninni.

 

Hvað gerist næst?

Grótta er fallið niður í Grill66 deildina þar sem þeir leika á næsta tímabili en Afturelding fer í rúmlega 2 vikna frí og mæta síðan Val í 8-liða úrslitum í úrslitakeppninni.

 

Einar Jónsson þjálfari Gróttu og Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar eru góðir félagar og þeir buðu upp á þá nýjung að mæta saman í viðtal eftir leik.

 

Einar Jóns: Dómararnir munu sakna mín

Einar Jónsson þjálfari Gróttu sagðist ekki vera nógu sáttur með frammistöðuna í dag og grínaðist með það að sitt lið ætti alltaf að vinna lið Aftureldingar.

 

„Nei, ég er ekki sáttur, ég er eiginlega bara brjálaður. Mér finnst að við eigum að vinna Aftureldingu hér á heimavelli og við vorum ekki að performa nógu vel í þessum leik.”

 

Hann sagði liðið hafa æft vel í allan vetur að spila 7 á 6 í sókn en þeir spiluðu þannig allan tímann í dag og gekk það nokkuð vel.

 

„Við erum búnir að æfa þetta vel í allan vetur og við ætluðum að beita þessu almennilega í síðasta leiknum og það heppnaðist ágætlega.”

 

Þegar Einar var spurður út í möguleika Gróttuliðsins næsta ár í næstefstu deild og hvort þeir væru vel í stakk búnir að takast á við deildina sagði hann að ég ætti að spyrja verðandi þjálfari liðsins, Einar Andra Einarsson sem stóð við hliðin á honum. 

 

„Já það er kominn ágætis kjarni í hópinn núna og ég held að það sé hægt að byggja upp á þessu og þetta verður fínt á næsta ári og árum.”

 

Varðandi framhaldið sagðist hann vera spenntur fyrir ævintýrinu í Færeyjum en hann er að taka við H71.

 

„Það er engin spurning að það eru margir að fara sakna mín hér heima í deildinni.” 

 

Þá kom Einar Andri með innskot að Seinni Bylgjan væri sérstaklega að fara sakna hans.

 

„Já auðvitað þeir eru að fara sakna mín. Dómararnir líka. Það verður rosa stuð í Færeyjum, snúðu þér nú að Einari Andra,” sagði Einar Jónsson að lokum.

Einar Andri: Nei nei þetta var grín

Einar Andri Einarsson þjálfari Aftureldingar var sáttur með sigur sinna manna á Gróttu í kvöld.

 

„Ég var sáttur með leikinn í kvöld. Grótta gerði þetta vel og erfitt fyrir okkur.”

 

„Takk,” heyrðist þá frá Einari Jónssyni.

 

„Einar er auðvitað búinn að liggja yfir þessum leik og vilja vinna. Við náðum að finna smá lausnir sem betur og við vorum flottir og náðum að klára þetta í seinni hálfleik.”

 

Eftir úrslit kvöldsins er orðið ljóst að Afturelding mætir liði Vals í 8 liða úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Aðspurður sagðist Einar Andri vera mjög spenntur fyrir þeirri viðureign.

 

„Mjög spenntur fyrir Val. Það verður krefjandi.”

 

Þá kom innskot frá Einari Jónssyni þar sem hann sagði að Afturelding ætti að klára það. Allir meiddir hjá Val en Einar Andri svaraði því með því að segja að það væru allir meiddir hjá Aftureldingu líka.

 

„Það verður bara krefjandi. Þeir eru bara góðir og við líka þannig að við bara tökum á því.”

 

Einar sagði varðandi meiðslin að Birkir Benediktsson væri tognaður á nára og Arnór Freyr Stefánsson væri með liðbandaskaða í fingri og það væri alveg óljóst hvort þeir geti verið með gegn Val og þeir myndu undirbúa sig fyrir leikina án þeirra.

 

Að lokum spurðum við út í þetta sem Einar Jóns sagði varðandi það að Einar Andri væri að taka við Gróttuliðinu.

 

„Nei það var grín hjá Einari,” sagði Einar Andri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira