Handbolti

Rúnar: Vissum kannski að við myndum tapa en ekki svona illa

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Rúnar Sigtryggsson
Rúnar Sigtryggsson vísir
 Stjarnan beið afhroð á heimavelli sínum gegn Selfyssingum í lokaumferð Olísdeildar karla í kvöld. Leiknum lauk með 16-32 sigri Selfoss. 

„Þetta var verðskuldað tap í dag og okkur var harkalega refsað fyrir að byrja kannski ekki með okkar sterkasta lið inn á,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.

„Við bara lentum á vegg, þessir strákar sem fengu að byrja, og þeir læra vonandi af því.“

„Við náðum aldrei takti, byrjuðum á ákveðnu liði og fundum aldrei taktinn. Selfyssingarnir  voru bara miklu grimmari og betri á öllum sviðum í dag.“

Rúnar tók tapið á sínar herðar þar sem hann ákvað að hvíla leikmenn sem voru tæpir fyrir átökin í úrslitakeppninni, en fyrir leikinn var ljóst að Stjarnan væri með sæti þar, spurningin var aðeins um hvort 7. eða 8. sætið yrði raunin.

„Við erum komnir í úrslitakeppnina, þetta var ekki leikur upp á líf og dauða fyrir okkur og bara fínt að enginn meiddist í dag.“

„Það munar um ákveðna pósta í liðinu hjá okkur, þetta tap fer alfarið á mig, undirbúningurinn og takturinn fór aðeins úr þessu með því að byrja svona. Við vissum kannski að við myndum tapa en ekki svona illa og að vera svona illa undir í hálfleik.“

„En þetta er bara staðan á liðinu í dag þegar ákveðnir menn eru ekki með.“

Bjarki Már Gunnarsson var ekki í leikmannahóp Stjörnunnar í kvöld, hann var einn af þeim sem var hvíldur og það alveg allan leikinn. Rúnar sagði hann hafa verið að harka af sér meiðsli það sem af er ári.

„Hann er búinn að vera tæpur og harkað af sér síðan í desember, menn finna ekki alveg hvað er að honum. Við erum búnir að reyna að hvíla hann til þess að hann verði betri og það mættu bara margir taka sér hann til fyrirmyndar í að leggja sig fram fyrir liðið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×