Handbolti

Seinni bylgjan: Reyndi á að þjálfa ungan Björgvin Pál

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gunnar Magnússon, þjálfari deildarmeistara Hauka, var besti þjálfari seinni hluta Olís-deildar karla að mati Seinni bylgjunnar. Haukar unnu átta af ellefu leikjum sínum eftir áramót, gerðu tvö jafntefli og töpuðu aðeins einum leik, fyrir Val á laugardaginn. Þá voru Haukar búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.

Gunnar mætti í settið í uppgjörsþætti Seinni bylgjunnar á sunnudaginn.

„Þetta er það sem við stefndum á og við erum glaðir að hafa náð þessum titli í hús,“ sagði Gunnar sem er á sínu fjórða tímabili með Hauka. Á fyrsta tímabili hans við stjórnvölinn (2015-16) urðu Haukar Íslands- og deildarmeistarar en næstu tvö tímabil voru ekki gjöful og enginn titill kom í hús.

„Það er alltaf pressa í þessu starfi og það þarf að vera pressa. Við viljum berjast um titla og vinna þá. Það er ekkert launungarmál. Við vinnum ekki alltaf en erum glaðir þegar það tekst,“ sagði Gunnar.

En hvað lagði grunninn að deildarmeistaratitlinum í vetur?

„Ef þú horfir á allt tímabilið skilaði lisðheildin og breiddin þessum titli. Við bjuggum okkur líka til breidd. Við tókum ákvörðun um að veðja á ungu strákana og gefa þeim traust,“ sagði Gunnar og vísaði þar til markvarðanna Grétars Ara Guðjónssonar og Andra Scheving og Darra Aronssonar og Orra Freys Þorkelssonar.

Gunnar hóf þjálfaraferilinn hjá Víkingi. Þar þjálfaði hann m.a. landsliðsmarkvörðinn Björgvin Pál Gústavsson sem lék svo undir stjórn Gunnars hjá Haukum á síðasta tímabili. Gunnar segir að það hafi verið krefjandi að þjálfa ungan Björgvin.

„Bjöggi var erfiður í æsku og ég þurfti oft að taka á honum. Þetta reyndi á mann og ég var ekki nema 16-17 ára á þessum tíma. En í dag er Bjöggi ljúfur sem lamb,“ sagði Gunnar.

Viðtalið við Gunnar má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Gunnar hefur þjálfað Björgvin Pál í áraraðir, fyrst í yngri flokkum Víkings, svo í íslenska landsliðinu og Haukum.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×