Umfjöllun og viðtöl: Valur - Akureyri 36-24 │Loksins vann Valur leik

Gabríel Sighvatsson skrifar
vísir/vilhelm
Valur tók á móti Akureyri í Origo-höllinni í dag. Þetta var síðasti leikur 19. umferðar í Olís-deild karla.

Valur hafði fyrir leikinn ekki náð í sigur í síðustu þremur leikjum en gafst gott tækifæri til þess á móti Akureyri sem var í fallsæti.

Í fyrri hálfleik voru allar flóðgáttir opnar og við fengum markasúpu. Valur var einu marki yfir í hálfleik 18-17.

Akureyri átti slæman seinni hálfleik en vörnin hélt áfram að leka inn mörkum, 18 í viðbót. Á hinn bóginn þá stigu Valsmenn upp í vörninni og áttu Akureyringar í stökustu vandræðum með að koma boltanum í netið.

Eftir algjöra yfirburði Vals í síðari hálfleik enduðu leikar 36-24 heimamönnum í vil og þeir halda sér ennþá í toppbaráttunni í deildinni.

Róbert Aron í baráttunni í kvöld.vísir/vilhelm
Af hverju vann Valur?

Það má svo sannarlega segja að leikurinn í kvöld hafi verið leikur tveggja hálfleika. Liðin skoruðu að vild í fyrri hálfleik en í seinni hálfleik spilaði Valur loksins vörn en það er erfitt að segja það sama um gestina.

Valsmenn komu vel stemmdir í leikinn, ákveðnir í að sýna hvað í þeim byggi eftir vonbrigðaúrslit upp á síðkastið. Þeir gerðu það svo sannarlega og skæð sókn þeirra skilaði 36 mörkum í kvöld.

Hvað gekk illa?

Akureyri gat ekki stöðvað Valsmenn í seinni hálfleik. Þeir gátu það reyndar heldur ekki í þeim fyrri.

Þeir náðu að halda í við heimamenn í fyrri hálfleiknum en notuðu mikla orku til þess og voru eflaust orðnir þreyttir þegar fór að líða á seinni hálfleikinn. Þeir voru oft óheppnir með skot í tréverkið og tæknifeila. Þá var Daníel Freyr Andrésson, markmaður Vals í stuði í seinni hálfleik.

Hverjir stóðu upp úr?

Daníel Freyr kom inn í markið hjá Val í seinni hálfleik og átti 12 varin skot. Hjá Akureyri var Arnar Þór með 15 varða bolta en datta svolítið úr sambandi undir lok leiks.

Vignir Stefánsson var markahæstur hjá heimamönnum með 9 mörk og Sveinn Aron Sveinsson var þar á eftir með 7 mörk og spilaði mjög vel í dag. Leonid Mykhaliutenko var markahæstur með 10 mörk fyrir Akureyri.

Hvað gerist næst?

Valur er áfram í 3. sæti og Akureyri áfram í 11. sæti. Akureyri þarf að ná í stig til að eiga séns á að halda sæti sínu í efstu deild. Þeim býðst tækifæri til þess næsta sunnudag þegar Garðbæingar koma í heimsókn.

Þrír leikir eru eftir í deildinni en Valur er líklega ekki að fara að ná Haukum eða Selfoss og vinna deildina. Næsti leikur verður hinsvegar spennandi viðureign þegar þeir fara í heimsókn til FH.

Geir messar yfir sínum mönnum í kvöld.vísir/vilhelm
Geir: Valur gerði þetta einstaklega vel

„Ég held að það sé alveg rétt orðað.” sagði Geir Sveinsson, þjálfari Akureyrar, aðspurður hvort það mætti segja að þetta hefði verið leikur tveggja hálfleika.

„Við getum í sjálfu sér verið sáttir með fyrri hálfleikinn þó maður sé kannski ekki ánægður með að fá á sig 18 mörk. Valur gerði þetta einstaklega vel og ekki bara í fyrri hálfleik, líka í seinni.”

„Þeir keyrðu á okkur og það kostaði okkur gríðarlega mikla orku. Í þau skipti sem við náðum að koma okkur til baka og standa vörnina þá gerðum við það þokkalega, ég var ánægður með það í fyrri hálfleik. Þetta varð erfiðara og erfiðara í seinni hálfleik og við vorum frekar fáliðaðir.” sagði Geir og nefndi þá líka hversu mikill munur væri á mannskapi liðanna.

„Við þurftum mikið að keyra á sama mannskapnum og áttum erfitt með að skipta leikmönnum og annað. Þeir héldu áfram sínum dampi og sýndu sinn styrk. Þetta er frábært lið, þeir eru með tvo menn í hverri einustu stöðu og geta rúllað þessu margfalt betur en við. Við náum ekki að skora nema 7-8 mörk í seinni hálfleik sem er alltof lítið á móti liði eins og Val,”

Augljóslega gekk illa hjá Akureyri í seinni hálfleik og spilaði margt inní þar.

„Ég veit nú ekki hvað (klikkaði), hann varði mjög vel í markinu og við vorum að skjóta full mikið í slá og stöng og annað fannst mér. Ég þarf að skoða það í rólegheitum hvað við erum að klikka mikið á ágætis færum. Svo auðvitað á þessum upphafskafla í seinni hálfleik þá held ég að við séum með 5 tekníska feila, það er ekkert hægt á móti Val, þeir refsa eins og skot fyrir það og það var alltof dýrt.”

Það er ljóst að liðið þarf að vinna úr þessu fyrir næsta leik liðsins á sunnudag en þeir eru ennþá að berjast fyrir lífi sínu í Olís-deildinni.

„Það er alltaf eitthvað sem má bæta og það að það sem við þurfum að gera. Við skoðum þennan leik og tökum það jákvæða út úr honum, fyrri hálfleikinn og annað. Það var margt mjög gott, sóknarleikurinn með gott flæði. Við þurfum að halda áfram okkar vinnu. Það eru ennþá 3 leikir eftir og það eru 6 stig í boði og við þurfum bara að hugsa um þau.”

Snorri segir mönnum til. Ekki tómur kofinn þar.vísir/vilhelm
Snorri Steinn: Sá aftur okkar karakter

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var að sjálfsögðu sáttur með sigurinn í dag. Valur hafði verið í vandræðum í síðustu leikjum en svaraði fyrir það í dag á sannfærandi hátt.

„Ég er gríðarlega ánægður. Það er mjög góð tilfinning að vera farnir að vinna leiki aftur.”

„Það er búin að vera brekka. Það er aðeins meira en að segja það að koma til baka og við þurftum smá tíma í það. Þetta er mjög mikilvægt fyrir okkur og liðið að vinna og að gera það sannfærandi.”

Snorri Steinn var virkilega ánægður með frammistöðu liðsins í dag.

„Mér fannst ég sjá aftur okkar karakter. Auðvitað er líka eitt og annað sem við getum lagað, í fyrri hálfleik fáum við á okkur of mikið af mörkum og erum að gera of marga tæknifeila að mínu mati. En það var miklu meira jákvætt heldur en neikvætt í þessum leik.”

„Við náðum upp mjög góðu tempói og miklu hraða, við skoruðum mikið úr hraðaupphlaupum. Vörnin small aðeins og Danni (Daníel Freyr Andrésson) fór að verja frábærlega í markinu þannig að auðvitað hafði þetta allt sitt að segja. Á endanum var þetta mjög þægilegur sigur.”

Varnarlega var vesen á Valsmönnum í fyrri hálfleik en þeir náðu upp góðri vörn í seinni hálfleik sem var gríðarlega mikilvægt upp á að ná í stigin tvö. Snorri vissi ekki hvar þessi vörn var í fyrri hálfleik.

„Það er erfitt að segja, við vorum líka í smá ströggli í vörninni á móti ÍBV. Við höfum verið að vinna í því að stoppa í götin og finna okkar takt í 6-0 vörninni. Ég þarf að skoða það aftur hvort þetta var einhver katastrófa en ég held ekki. Það voru stór atriði sem við lagfærðum í hálfleik, við gerðum það vel og Danni tók þessa bolta sem við þurftum á að halda.”

„Við erum í toppbaráttunni en ég held þessi deildarmeistaratitill sé því miður ekki möguleiki. Selfoss og Haukar eru einfaldlega of góð til þess að fara að klúðra því. Fyrir mér snýst þetta ekki um það, við þurfum bara að halda áfram að vinna í okkur. Það eru 3 mjög mikilvægir leikir eftir fyrir okkur og við ætlum að koma í góðu stuði og með gott sjálfstraust í úrslitakeppnina, það er númer 1, 2 og 3 hjá okkur.” sagði Snorri Steinn aðspurður um toppbaráttuna en hann var fyrst og fremst ánægður með frammistöðu liðsins í dag.

„Ég var ánægður með karakterinn, baráttuna og viljann. Mér fannst við aldrei missa móðinn eða hengja haus og margir að leggja hönd á plóginn, margir að skora og margir að koma með góðar innkomur.” sagði Snorri Steinn að lokum.

Vignir stendur vörnina í kvöld.vísir/vilhelm
Vignir: Allir að gera þetta fyrir hvorn annan

„Að sjálfsögðu er ég ánægður með það (2 stig). Við gerðum bara það sem við lögðum upp með, við vorum búnir að vera svolítið þungir og bara létt pirraðir yfir hvernig við erum búnir að vera að spila, sjálfum okkur verstir.” sagði Vignir Stefánsson, leikmaður Vals, eftir leikinn.

Ákveðið vesen var búið að vera á Valsmönnum fyrir leik en þeir voru ekki búnir að hafa sigur síðustu þrjá leiki. Vignir sagðist finna mun á þessum leik samanborið við siðustu leiki liðsins.

„Mér fannst meiri sannfæring í öllu sem við vorum að gera. Það voru allir að gera þetta fyrir hvorn annan og höfðum trú á þetta og fórum „all-in.””

Leikurinn var tvískiptur það var annars vegar hörku sókn en slök vörn í fyrri hálfleik en í þeim seinni þá hélt sóknin áfram, en það sem meira máli skipti, varnarleikurinn fór að ganga betur.

„Þetta var hörku hlaupaleikur, þetta var „box-to-box” eins og einhver sagði einhvers staðar. Við vorum svolítið pirraðir hvað við vorum að leka mikið af mörkum í fyrri. Við fórum aðeins yfir það og það small í seinni hálfleik.” sagði Vignir.

„Virkilega ánægður með sóknarleikinn, gott flot á þessu og við vorum að finna eina aukasendingu. Svo var Róbert (Aron Hostert) að losna við gleraugun þannig að við fögnum því bara.”

Vignir segir að liðið sé ekkert að pæla í stigatöflunni.

„Við erum ekkert að horfa á það, við vorum eingöngu að pæla í okkur sjálfum fyrir þennan leik. Það eru ennþá 3 leikir eftir í deildinni þannig að við fókuserum á okkur sjálfa áfram.”



Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira