Innflytjendur voru að jafnaði með tæplega átta prósent lægri laun en innlendir að teknu tilliti til kyns, aldurs, menntunar, fjölskylduhaga, búsetu og ýmissa starfstengdra þátta á tímabilinu 2008 til 2017.
Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar Hagstofu Íslands á launamun innflytjenda og innlendra sem unnin var í samvinnu við innflytjendaráð.
Í frétt á vef Hagstofunnar segir að frekari útreikningar sýni hærri laun hjá innlendum en innflytjendum í störfum sem innflytjendur vinna oftast samkvæmt gögnunum. Þannig hafi skilyrtur launamunur verið 10 prósent í störfum ræstingafólks og aðstoðarfólks í mötuneytum, 11 prósent í störfum verkafólks við handsamsetningu, og átta prósent í störfum við barnagæslu.
„Þegar skoðað var hvaða þættir skýra breytileg laun meðal innflytjenda, ber helst að nefna að innflytjendur fæddir á Norðurlöndunum eru að jafnaði með hærri laun en innflytjendur fæddir í öðrum löndum. Til dæmis eru innflytjendur frá Vestur-Evrópu að jafnaði með 4% lægri laun en innflytjendur frá Norðurlöndunum og innflytjendur frá Austur-Evrópu að jafnaði með 6% lægri laun. Lægstu launin, miðað við innflytjendur frá Norðurlöndunum, hafa innflytjendur frá Asíu, eða 7% að jafnaði.
Niðurstöður greiningarinnar sýndu einnig að þeir innflytjendur sem komu til Íslands fyrir 6 til 9 árum hafa að jafnaði 2% hærri laun en þeir sem hafa dvalið hér á landi 5 ár eða skemur. Þær sýna einnig að þeir sem hafa verið hér í 10 ár eða lengur eru að jafnaði með 3% hærri laun,“ segir í fréttinni.
Nánar má lesa um rannsóknina á vef Hagstofunnar.
Laun innflytjenda átta prósent lægri en laun innlendra
