„Vá hvað þetta var geggjað. Það breytir svo miklu þegar þú hefur gaman að því að spila körfubolta. Það var gaman að vera á vellinum og þá leggur maður sig mikið meira fram og það lyftist allt saman upp og allir koma með. Þetta var bara frábært kvöld í Breiðholtinu.“
Þetta sagði besti maður vallarins í leik ÍR og Njarðvíkur í kvöld, hann Matthías Orri Sigurðarson þegar hann var spurður að því hvort honum hafi fundist þetta jafn geggjuð frammistaða hjá ÍR og blaðamanni.
Hann skoraði ekki stig í þriðja leiknum sem fram fór í Ljónagryfjunni á miðvikudaginn síðasta en sallaði niður 23 stigum í kvöld. Var hann spurður út í hvað hafi breyst á milli leikja hjá honum persónulega.
„Ég var kominn í einhverja gryfju eftir þennan leik, þriðja leikinn í röð þar sem mér finnst ég ekki vera að standa mig en ég set mikla ábyrgð á sjálfan mig að standa mig vel. Bæði fyrir mig sjálfan og fyrir liðið mitt. Ég fór bara og skoðaði aðeins leikina og leit á þetta sem nýja áskorun, ég hef aldrei ekki skorað stig í körfuboltaleik áður og þetta var bara nýr leikur fyrir mig.“
„Ég á svo bara rosalega góða að sem hjálpuðu mér því þetta var pínu erfitt en ég var staðráðinn í það að sýna hvað ég er í raun og veru og hvað ég geri þegar það gengur illa. Ekki bara fyrir sjálfan mig heldur fyrir liðið mitt. Liðið var fyrst og fremst frábært í kvöld. Alveg sama hvað ég gerði þá var það liðið sem var frábært í kvöld.“
Matthís var svo að lokum spurður að því við hverju við ættum að búast á sunnudaginn í Ljónagryfjunni.
„Látum. Gleði vonandi aftur, jöfnum leik og sigurkörfu sitt hvorum megin myndi ég halda fljótt á litið. Við erum ógeðslega spenntir fyrir þessu, það er ekkert betra en oddaleikur og það er gaman að vera í Njarðvík. Þetta er lítill völlur og mikil læti. Við getum bara ekki beðið eftir þessu.“
Matthías: Ég var staðráðinn í það að sýna hvað ég er í raun og veru

Tengdar fréttir

Leik lokið: ÍR - Njarðvík 87-79 | Oddaleikur í Ljónagryfjunni á sunnudag
ÍR kafsigldi Njarðvíkinga og eiga fyllilega skilið að fara í oddaleik.