Boeing 737-MAX 8 flugvél eþíópíska flugfélagsins Ethiopian Airlines sem fórst skömmu eftir flugtak frá Addis Ababa með 157 um borð er önnur flugvél þessarar gerðar sem ferst á tæpu hálfu ári. Fyrra slysið varð þegar flugvél Lion Air fórst á leið sinni frá Indónesíu.
Rætt hefur verið um líkindi með flugslysi Lion Air flugvélarinnar og Eþíópían Airlines í gær en eftir slys þess fyrrnefnda í lok október í fyrra áréttaði Boeing-flugvélaframleiðandinn mikilvægi þess að flugmenn og flugstjórar fylgi verklagsreglum í handbókum vélanna.

„Nei, það hefur ekkert nýtt borist, hvorki frá framleiðendum né yfirvöldum hér. Það væri óeðlilegt að velta ekki fyrir sér öllum hliðum á þessu máli og það er eðlilegt að fólk spyrji sig spurninga. Við hins vegar fylgjumst mjög vel með stöðu mála, fáum allar upplýsingar um leið og þær berast og fylgjum þeim ábendingum um það,“ segir Jens.
„Þrátt fyrir að geti mögulega verið tengsl á milli þessara atburða þá er líka ýmislegt sem bendir til þess að svo sé ekki. Um leið og við færum að hafa verulegar áhyggjur þá myndum við bregðast við um leið.“
Jens segir eitthvað um að flugfarþegar hafi haft samband við þjónustuver Icelandair vegna slyssins í gær.
„Við náttúrulega reynum að skýra málið og skýra okkar afstöðu fyrir þeim viðskiptavinum sem hringja. Það hefur verið eitthvað um hringingar frá viðskiptavinum.“
Gengi flugvélaframleiðandans Boeing hafa hríðfallið í morgun og þá hefur gengi hlutabréfabréfa Icelandair í Kauphöllinni hefur lækkað um tíu prósent í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöllinni.
Viðskipti með bréf í félaginu nema rúmum 150 milljónum króna það sem af er degi. Hrunið má að einhverju leyti tengja flugslysinu í Eþíópíu í gær sem og tíðindum af mögulega auknu framlagi Indigo Partners í rekstur WOW air.