Hún var komin til Suður-Afríku þar sem næsta mót hefst í Cape Town á fimmtudaginn þegar Fréttablaðið heyrði í henni. Aðspurð sagðist hún vera ánægð með spilamennskuna í lokamótinu.
„Þó að það sé auðvitað smá svekkelsi með lokaniðurstöðuna um helgina þá er ég heilt yfir ánægð með spilamennskuna á mótinu. Þetta voru nokkur mót í Ástralíu þar sem ég var yfirleitt að spila vel en stakar holur voru að skemma fyrir. Sem betur fer tókst mér að enda þessa törn á ágætis nótum. Auðvitað vildi ég vinna mótið en það verður bara að bíða,“ sagði Valdís og hélt áfram:
„Fyrsti hringurinn var frábær. Þetta voru ótrúlegar tölur miðað við að ég hitti bara fjórar brautir í upphafshöggunum. Þetta var völlur þar sem þú þarft að vera á brautunum en það tókst að vera vel staðsett sem gaf mér færi á að komast inn á flatirnar og í færi. Um helgina lenti ég í vandræðum með grasið í kringum flatirnar, það var erfitt að lesa í það þegar ég var að vippa inn á.“

„Ég þurfti að breyta aðeins sveiflunni, fara hægar í hana en vanalega en það kom ekkert niður á lengdinni. Þetta er eitthvað sem ég þurfti að huga að til að hlífa bakinu betur. Ég hef ekki enn hitt lækni vegna þessa en sjúkraþjálfari sem ég ræddi við talaði um að það væru þrjú rifbein sem festust og að þau hreyfist ekki með rifjahylkinu þegar það er undir álagi. Kannski var það adrenalínið sem útilokaði sársaukann inni á vellinum en það voru vandræði í daglegu lífi. Þetta er búið að vera svona síðan í ágúst og ég er búin að prófa allar þær meðferðir sem sjúkraþjálfarinn mælti með en nú er komið að því að finna lausn á þessu vandamáli,“ sagði Valdís sem tekur þátt í einu móti áður en hún kemur heim til Íslands.
„Núna er mót í Suður-Afríku, ég var búin að ganga frá öllu þegar kom að því en svo kem ég heim til að skoða þessi meiðsli. Ég get spilað eitt mót í viðbót en markmiðið er að finna lausn á þessu vandamáli. Það eru fimm vikur á milli þessa móts og mótsins í Marokkó sem gefur mér vonandi nægan tíma,“ sagði Valdís.