Því er spáð að miklar breytingar verði á vinnumarkaði með framþróun í gervigreind og annarri tækni sem leiði til aukinnar sjálfvirknivæðingar á næstu árum og áratugum. Í viðtali í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni sagði Huginn Freyr að það væri ekkert nýtt að störf hyrfu eða breyttust. Vísaði hann meðal annars til þess hvernig vinnuafl á Íslandi hefði fært sig úr landbúnaði og sjávarútvegi yfir í þjónustustörf á síðustu öld.
„Við höfum alltaf verið að glíma við einhvers konar svona þróun þannig að við þurfum ekki að óttast breytingar á vinnumarkaði, það er kannski bara hvað við gerum í þessu millibilsástandi þegar við erum að fara í gengum breytingarnar,“ sagði hann en nefndin sem hann stýrði skilaði skýrslu sinni til forsætisráðherra á föstudag.
Opinber stefnumótun en ekki tæknin væri lausnin á því millibilsástandi. Tryggja þurfi að velferðarkerfi sé til staðar, möguleiki á símenntun og þjálfun mannaflans í grunnfærni. Bæði vinnuveitendur og verkalýðshreyfingin þurfi að bera ábyrgð á að þjálfa starfsfólk í ný störf.
Sagði Huginn Freyr að rannsóknir hefðu sýnt að Norðurlöndin væru betur í stakk búin en flest önnur ríki að takast á við afleiðingar fjórðu iðnbyltingarinnar. Hópurinn sem hann stýrði hefði komist að því að Ísland sé á svipuðum stað og nágrannaríkin hvað þetta varðar.
Aldan kemur yfir okkur ef ekkert verður gert
Áhrif sjálfvirknivæðingarinnar kom ekki jafnt niður á ólíka hópa á vinnumarkaði. Huginn Freyr sagði að störf sem væru fjölbreytt væru ólíklegri til að breytast eða hverfa en þar sem mikillar endurtekningar væri krafist, hvort sem þau krefðust líkamslegs afls eða hugarafls.Þannig gætu breytingarnar haft meiri áhrif á hefðbundin karlastörf en störf kvenna, störf á landsbyggðinni frekar en í þéttbýli og á störf erlendra ríkisborgara frekar en innfæddra. Einnig væri hætta á að störf sem ungt fólk í leit að reynslu á vinnumarkaði hafi leitað í glatist.
„Það er ljóst að mörg þau störf sem ungt fólk hefur verið að vinna í munu breytast eða hverfa. Þetta eru þá til dæmis afgreiðslustörf í búðum og svo framvegis,“ sagði hann.
Nefndin sem Huginn Freyr stýrði reyndi að jarðtengja umræðu um fjórðu iðnbyltinguna og leggja hvað heiðarlegar staðreyndir um hvað gæti gerst, að hans sögn. Breytingar ættu eftir að verða á vinnumarkaði. Mikill arður yrði til fyrir þá sem næðu árangri í sjálfsvirknivæðingu og tryggja þyrfti sanngjarna dreifingu gæðanna. Ýmisleg siðferðisleg álitaefni ættu ennfremur eftir að koma upp.
„Þetta eru allt hlutir sem er mögulegt að takast á við en ef við gerum ekki neitt þá kemur þessi alda bara yfir okkur,“ sagði Huginn Freyr.