Handbolti

Ólafur Bjarki spilar líklega á Íslandi á næsta tímabili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Bjarki Ragnarsson í leik með West Wien.
Ólafur Bjarki Ragnarsson í leik með West Wien. Getty/ Ewald Rauscher
Olís deildin gæti verið að fá feitan bita heim á næstu leiktíð samkvæmt heimildum Íþróttadeildar Sýnar.

Ólafur Bjarki Ragnarsson, sem leikið hefur með West Wien í Austurríki síðastliðinn tvö ár, mun í sumar snúa heim til Íslands og væntanlega finna sér íslenskt lið til að spila með.

Ólafur Bjarki hefur leikið í Þýskalandi og átti sæti í íslenska landsliðinu í handbolta en meiðsli settu þar strik í reikninginn hjá þessum öfluga leikstjórnanda sem sló í gegn þegar HK varð Íslandsmeistari öllum að óvörum árið 2012.

Ólafur Bjarki skoraði 33 mörk í 6 leikjum með HK í úrslitakeppninni 2012 þegar liðið vann alla sex leiki sína en hann var þá næstmarkahæstur í liðinu á eftir Bjarka Má Elíssyni.

Ólafur Bjarki hefur spilað 34 landsleiki fyrir Ísland en hann var var í hópnum á EM í Serbíu 2012.

Ólafur Bjarki verður 31 árs gamall í sumar en hann lék með þýsku liðunum TV Emsdetten og ThSV Eisenach á fimm árum sínum í Þýskalandi en hefur leikið í Austurríki frá 2017.

Ólafur Bjarki hefur skorað 41 mark í 13 leikjum með West Wien í austurrísku deildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×