Umfjöllun og viðtöl: Valur - Selfoss 25-26 | Nökkvi hetjan í spennutrylli

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
Selfyssingar fagna í kvöld.
Selfyssingar fagna í kvöld. vísir/bára
Selfoss hafði betur gegn Val í stórleik 16. umferðar þegar liðið vann eins marks sigur á Hlíðarenda, 25-26. 

Nökkvi Dan Elliðason var hetja Selfoss er hann kom þeim í forystu þegar tæpar 30 sekúndur voru til leiksloka. Ásgeir Snær Vignisson fékk dauðafæri á að jafna leikinn þegar örfáar sekúndur voru eftir af leiknum en skot hans hafnaði í stönginni.

Valur átti erfitt uppdráttar í leiknum og náði liðið sér ekki almennilega á strik fyrr en undir lok fyrri hálfleiks eða þegar 10 mínútur voru eftir. Selfoss sem byrjaði leikinn betur leiddu þá með þremur mörkum, 5-8. Valur tók leikhlé og náði að rífa sig í gang það sem eftir var fyrri hálfleiks og staðan að honum loknum, 11-12, gestunum í vil. 

Það voru svo heimamenn sem mættu grimmari til leiks í síðari hálfleik og náðu strax forystunni. Valur náði 4-1 kafla og í kjölfarið tók Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, leikhlé. Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks en Valur hélt alltaf eins til tveggja marka forystu. 

Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 23-23. Selfyssingar misstu þá tvo leikmenn útaf og voru tveimur færri, heimamenn náðu ekki að nýta sér þá yfirtölu og staðan var ennþá jöfn þegar ein mínúta var eftir, 25-25.

Nökkvi Dan Elliðason skoraði sigurmarkið fyrir Selfoss þegar tæpar 30 sekúndur voru eftir, Valur tók leikhlé og freistaðist til þess að jafna leikinn. Ásgeir Snær Vignisson fékk það hlutverk að skjóta á markið en skot hans hafnaði í stönginni og sigur Selfoss staðreynd. Lokatölur á Hlíðarenda, 25-26, eftir spennuleik toppliðanna.

Úr leik kvöldsins.vísir/bára
Af hverju vann Selfoss?

Þeir gáfust aldrei upp eins og svo oft áður. Valur hafði yfirhöndina í seinni hálfleik en voru klaufar að klára ekki leikinn. Það hefur mikið að segja fyrir Val að það vanti fjóra leikmenn og sérstaklega hafa þeir saknað í dag Róbert Arons og Agnars Smára en liðið er vel mannað og vann Selfoss með 7 mörkum fyrir viku með þennan sama mannskap. Selfoss hafði bara betur í dag því þeir kláruðu leikinn á fullum krafti. 

Hverjir stóðu upp úr?

Magnús Óli Magnússon, hefur verið frábær fyrir Val síðustu leiki og það var engin breyting á því í kvöld, hann var besti leikmaður Vals. Hann var markahæstur með 8 mörk og skilaði sínu í vörninni.

Hjá Selfossi og heilt yfir í leiknum var Elvar Örn Jónsson bestur. Elvar Örn var bæði markahæstur í liði Selfoss og einnig atkvæðamestur í vörninni með 8 löglegar stöðvanir. 

Hvað gekk illa? 

Heimamönnum gekk illa að ná almennilegri forystu, þeir komu sér í tveggja marka forystu en misstu leikinn alltaf aftur niður í eitt mark. Sóknarleikur Vals varð þeim að falli í dag, þeir gerðu sig seka um alltof marga tapaða bolta sem skrifa má á hreinan klaufaskap.

Hvað er framundan? 

17. umferðin verður spiluð seinna í þessari viku, fimmtudag og föstudag. Þá fer Valur í heimsókn í Mosfellsbæinn þar sem liðið mætir Aftureldingu en Selfoss fær FH í heimsókn. Tveir stórleikir framundan á föstudaginn.

Guðlaugur líflegur í kvöld.vísir/bára
Gulli: Öll lið finna fyrir því að missa góða menn í burtu

„Ég er bara ógeðslega fúll að tapa leiknum,“ sagði Guðlaugur Arnarsson, þjálfari Vals, í samtali við Vísi eftir tap Vals með minnsta mun gegn Selfyssingum í Olís-deild karla í kvöld.

Nökkvi Dan Elliðason skoraði sigurmarkið um tuttugu sekúndum fyrir leikslok en Valsmenn klúðruðu dauðafæri færi skömmu fyrir leikslok þar sem þeir hefðu getað jafnað metin.

„Við fengum gott færi á því að taka allavega einn punkt út úr honum en við töpum bara fyrir góðu Selfoss liði.“ 

Valur átti góða spretti í leiknum og heilt yfir sýndu þeir góðan leik en það vantaði þó alltaf aðeins uppá að ná almennilegri forystu og segir Gulli það skrifast á leikmenn og klaufaskap að hafa ekki spilað betur úr þeirri forystu sem þeir komu sér í. 

„Okkur vantaði móment að koma þessu í þrjú mörk. Við fórum svo illa með færi þegar við erum tveimur fleiri hérna undir lokin.“

„Ákvarðanataka var ekki nógu góð og þetta skrifast bara aðeins á okkur með klaufaskap og að hafa ekki komið þessu í þrjú mörk til að klára leikinn. En við vorum að spila á móti frábæru liði Selfoss sem keyrði bara á okkur og vann í dag.“

Gulli og Snorri Steinn tóku leikhlé þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum og stilltu upp fyrir loka sóknina. Valsmenn komu sér í gott færi til að jafna leikinn en það tókst ekki og fóru heimamenn svekktir af velli

„Við fengum dauðafæri á því að ná inn punkti og hefði viljað það úr því sem komið var en heilt yfir eru fullt af góðum punktum í leiknum, en það er svekkjandi að tapa.“

Valsmenn voru án lykilmanna í dag líkt og í síðasta leik. Gulli segir það auðvitað muna um það en segist ennfremur vera stoltur af þeim leikmönnum sem spiluðu leikinn. 

Það er mikið lagt á herðar þeirra Magnúsar Óla Magnússonar og Antons Rúnarssonar í fjarveru Róberts Arons og Agnars Smára en Gulli segist vera ánægður með þá leikmenn sem komu inn og hrósar innkomu Ásgeirs Snærs í hægri skyttuna. 

„Auðvitað finna öll lið fyrir því þegar þau missa góða menn í burtu en ég var ánægður með þá leikmenn sem spiluðu og ánægður með þá sem komu inn. Ásgeir (Snær Vignisson) stóð sig vel í hægri skyttunni í fjarveru Agga (Agnars Smára Jónssonar) svo ég er bara ánægður holninguna á liðinu,“ sagði Gulli að lokum

Patti á hliðarlínunni í kvöld.vísir/bára
Patti: Tekið voða mikið eftir því þegar þeir verja ekki

Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, var stoltur af sínum drengjum að sækja tvö stig í Origo-höllina í kvöld er Selfoss vann sigur gegn Val, 27-26. 

„Þetta var hörkuleikur. Mér fannst bæði lið bara hrikalega flott í dag,“ sagði Patrekur í samtali við Vísi í leikslok augljóslega ánægður með sigurinn.

„Auðvitað erum við ánægðir með að hafa unnið leikinn. Þetta var tæpt hann (Ásgeir Snær) skýtur í stöngina undir restina svo þa ðvar ekki mikið á milli. Ég er bara ánægður með að koma hingað og vinna Valsmenn, það er eitthvað sem er sérstakt.“

Þessi sömu lið mættust á dögunum í Coca-Cola bikarnum en Valsmenn unnu þá leik liðanna á Selfossi.

„Við erum svekktir að hafa ekki komist áfram í bikarnum við vildum það. Núna er það bara deildin og ég lagði það þannig upp að ef við ætlum að vera að berjast á toppnum með liðunum sem eru þar FH, Haukar og Valur þá þyrftum við að vinna þennan leik annars hefði þetta orðið heldur erfitt en ekkert ómögulegt.“

„Valsararnir voru líka góðir. Þeir spiluðu fastann bolta og við leystum það vel í seinni hálfleik með Nökkva því Árni er ekkert kominn í nógu gott stand.“

Pawel átti ágætis innkomu í markið hjá Selfyssingum í kvöld en markvarslan hefur ekki verið uppi á marga fiska hjá Selfyssingum í vetur. Patti er ekki alveg sammála því.

„Pawel hefur alveg dottið inná ágætis leiki. Það er bara tekið voða mikið eftir því þegar þeir verja ekki,“ sagði hann að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira