Í ákvörðun Neytendastofu kemur fram að stofnunni hafi borist ábendingar um að erfitt væri að sjá að Húsgagnhöllin hafi nokkurn tímann selt sófann á tilgreindu fyrra verði, sem var 79.900 krónur. Fór Neytendastofa því fram á að verslunin myndi útskýra hvernig á þessu gæti staðið.
Í svörum Húsgagnahallarinnar kom meðal annars fram að félagið hafi skýrar verklagsreglur um afslætti og tilboð. Í þeim tilvikum sem afslættir séu ekki á ákveðnum vörum, heldur heilum vöruflokkum, beri starfsmönnum að sýna sérstaka varkárni og yfirfara kjör á hverri einustu vöru.

Umræddur sófi hafi þannig ekki átt að vera á afsláttarkjörum samkvæmt framangreindu tilboði heldur átti hann að vera á fullu verði, enda hafi hann hvergi verið auglýstur sértaklega sem afsláttarvara. „Mannleg mistök hafi orðið við uppfærslu á vef félagsins sem leiddu til þess að umræddur sófi var ranglega merktur sem afsláttarvara, þrátt fyrir framangreindar verklagsreglur félagsins,“ segir í ákvörðun Neytendastofu og vísað til svara Húsgagnahallarinnar.
Þrátt fyrir þessar útskýraringar ítrekar Neytendastofa að vörur þurfi alltaf að hafa verið seldar á fyrra verði. Fyrirtæki þurfi að geta sýnt fram á að svo hafi verið, til að mynda með kvittunum eða gögnum úr bókhaldi. Það hafi Húsgagnhöllinni hins vegar ekki tekist.
„Það að mannleg mistök hafi átt sér stað hefur ekki áhrif á það hvort um brot sé að ræða gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu,“ segir Neytendastofa sem taldi því rétt að banna Húsgagnahöllinni að viðhafa þessa viðskiptahætti.
Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér.