Eimskipafélag Íslands hagnaðist um 7,4 milljónir evra á síðasta ári, samanborið við 16,8 milljóna króna hagnað árið þar á undan. Afkoman veldur vonbrigðum að því er fram kemur í uppgjörstilkynningu félagsins.
Afkoma Eimskipafélagsins áður en tekið er tillit til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta (EBIDTA) nam á síðasta ári 49,2 milljónum evra og lækkaði um átta milljónir evra frá árinu 2017 eða um 13,9 prósent.
Í tilkynningunni segir að helstu ástæður fyrir lækkun í EBITDA framlegð á milli ára má rekja til verri afkomu í frystiflutningum í Noregi, minni framlegðar af flutningsmiðlun í Evrópu og kostnaði við að bæta við þriðja skipi á svokallaðri Ameríkuleið sem tók lengri tíma en gert var ráð fyrir.
Þá kemur fram að vöxtur hafi verið á helstu mörkuðum félagsins en magní áætlunarsiglingum jókst um 4,2 prósent og tekjur hækkuðu um 10,8 milljón evra eða 2,5 prósent. Magn í flutningsmiðlun jókst um 4,3 prósent og tekjur hækkuðu um 14,4 milljónir evra eða 6,4 prósent, en þar af voru 10,3 milljónir evra vegna fyrirtækja sem komu inn í samstæðuna um mitt ár 2017.
„Afkoma Eimskips á árinu 2018 var undir væntingum. Nokkur tekjuaukning varð bæði í siglingakerfi félagsins sem og í flutningsmiðlun sem er jákvætt en á móti kemur að minnkandi framlegð, hærri kostnaður og afskriftir draga afkomu niður á milli ára. Lítilsháttar aukning varð á tekjum á fjórða ársfjórðungi sbr. sama ársfjórðung 2017 en engu að síður er rekstrarniðurstaða fjórðungsins tap, að hluta til vegna óreglulegra liða,“ er haft eftir Vilhelmi Þorsteinssyni, forstjóra félagsins.
Þá leggur stjórn félagsins til 3,50 króna arðgreiðslu á hlut, alls um 653,2 milljónir króna eða um 4,8 milljónir evra sem nemur 64,8 prósent af hagnaði ársins. Er það við efri mörk arðgreiðslustefnu félagsins að því er segir í tilkynningu frá félaginu.

