Í húsinu við Heiðarbrún 1 í Hveragerði búa hjónin Gústaf S. Jónasson frá Kjóastöðum í Biskupstungum, 77 ára og Sigríður Kristjánsdóttir, 62 ára hjúkrunarfræðingur hjá Heilsustofnun í Hveragerði. Þau eru dugleg að gera hlutina saman, hafa t.d. heimsótt um 50 lönd út um allan heim og svo eiga þau gæðastundir heima í stofu þar sem þau sitja og prjóna. Gústaf byrjaði að prjóna þegar hann hætti að vinna.
„Mér líkar mjög vel að prjóna, það auðveldasta við prjónaskapinn eins og beint prjón, ég er lítið í munsturprjóni og ekkert eiginlega, konan sér um að gera munstur og setja í ermar og svona“.
Gústaf segist ekki þekkja neina karla á aldur við sig sem prjóna og hann skammast sín ekkert fyrir prjónaskapinn, hann er stoltur að kunna að prjóna, enda segist hann ekki prjóna í laumi.
„Nei, nei, mér er alveg sama, þú horfir á mig“, segir hann skellihlæjandi.

„Það er svo fallegt það sem hann prjónar því hann prjónar svo jafnt. En ef það er eitthvað þá rek ég upp eftir hann ef ég sé einhverja vitleysu, ég gef honum það ekkert eftir“, segir Sigríður.
Að prjóna vettlinga fyrir einn af leikskólum Hjallastefnunnar í Reykjavík er eitt af því skemmtilegra sem hjónin gera en þangað fara að jafnaði 140 pör á ári. Þau prjóna líka mikið fyrir Rauða krossinn.
Sigríður segist vera mjög stolt af Gústaf og hans prjónaskap. „Já, já, ég er það, það er nú eiginlega ekkert annað hægt, ég er mjög stolt“, og bætir við að prjónaskapurinn dragi ekki úr rómantíkinni á heimilinu, þau séu allavega að gera sömu hlutina.
