Forráðamenn spænsku úrvalsdeildarinnar hafa óskað þess að spænska knattspyrnusambandið refsi Gareth Bale, leikmanni Real Madrid, fyrir hegðun sína í leiknum gegn Atletico á dögunum.
Bale gulltryggði 3-1 sigur Real á nágrönnum sínum og fagnaði með handahreyfingu sem þykir dónaleg á Spáni. Með því hafi hann verið að ögra stuðningsmönnum Atletico.
Forráðamenn deildarinnar hafa verið í átaki til þess að útrýma fögnum þar sem stuðningsmönnum andstæðinganna er ögrað. Þess vegna eru þeir lítt hrifnir af þessu uppátæki Bale.
Ef Bale verður dæmdur sekur gæti hann fengið allt frá fjögurra upp í tólf leikja bann.

