Liverpool tekur á móti þýska stórliðinu Bayern München annað kvöld í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar.
Liverpool hefur ekki unnið ensku deildina í 29 ár (1990) en vann Meistradeildina árið 2005. Það var fimmti sigur Liverpool í Evrópukeppni meistaraliða en liðið vann einnig 1977, 1978, 1981 og 1984.
Fjölmiðlamaður á fundi Jürgen Klopp í dag hafði það eftir stuðningsmanni Liverpool að sá hinn sami væri alveg til í að detta út á móti Bayern ef það þýddi að liðið myndi loksins vinna ensku deildina. Hann spurði Klopp út í þá yfirlýsingu.
Jurgen Klopp: I know Liverpool fans would rather win the Premier League than Champions League #LFChttps://t.co/ofPdzIl0nTpic.twitter.com/wyfnjDGktk
— Telegraph Football (@TeleFootball) February 18, 2019
„Ég veit ekki alveg hvernig ég að svara þessu,“ sagði Jürgen Klopp enda á fullu að undirbúa Meistaradeildarleik á móti Bayern.
„Ef stuðningsmenn Liverpool fengju að velja þá er það ljóst að það yrði alltaf enska úrvalsdeildin. Núna erum við hins vegar að spila í Meistaradeildinni og allir fyrrnefndir stuðningsmenn búast við því að við gerum okkar besta á morgun,“ sagði Klopp.
„Þökkum guði fyrir að þurfa ekki að taka þessa ákvörðun,“ sagði Klopp síðan í léttum tón.
„Við vitum það ekki í dag eða á morgun. Við verðum að gefa allt okkar, spila ástríðufullan fótbolta og fótboltann sem við búumst alltaf við þegar við spilum á Anfield,“ sagði Klopp.