Nýir eigendur vilji tryggja að Bílanaust geti áfram boðið breitt úrval af varahlutum og rekstrarvörum fyrir bíla og veitt viðskiptavinum góða þjónustu.
Motormax er að fullu í eigu UK fjárfestinga ehf, móðurfélags Toyota á Íslandi. UK fjárfestingar ehf er í eigu fjögurra aðila sem hvert um sig á 25 prósenta hlut. Úlfar Steindórsson og Jóna Ósk Pétursdóttir, í gegnum hlutafélagið JÚ ehf, og Þórunn Sigurðardóttir og Kristján Þorbergsson í gegnum ÞK fjárfestingar ehf.
Úlfar er forstjóri Toyota á Íslandi en þeir Kristján keyptu meirihluta í bílafyrirtækinu árið 2011.

Á heimasíðu Motormax segir að fyrirtækið sé innflutnings- og söluaðili fyrir kerrur, dráttarbeisli og varahluti. Það bjóði upp á breitt úrval varahluta í flesta bíla, sem og aukahluti s.s. húdd- og gluggavindhlífar. Auk þess sé fyrirtækið innflutnings- og söluaðili fyrir Westfalia dráttarbeisli og Brenderup kerrur.
Bílanaust var stofnað árið 1962. Rekstur fyrirtækisins hefur gengið erfiðlega undanfarin ár og nam uppsafnað tap áranna 2012 til 2017 300 milljónum króna. Fréttablaðið greindi frá því í haust að stjórnendur Bílanausts ættu í viðræðum við viðskiptabanka Bílanausts þar sem félagið uppfyllti ekki ákvæði lánasamninga.
Fór svo að starfsmönnum var tilkynnt um yfirvofandi lokun og gjaldþrot Bílanausts þann 9. janúar. Félagið Efstastund hélt utan um eignarhaldið í Bílanaust. Stærsti hluthafinn er hið erlenda Coldrock Investments limited sem á 43,55 prósent hlut í Efstasundi. Þau Guðný Edda Gísladóttir, Gunnar Þór Gíslason, Eggert Árni Gíslason og framkvæmdastjórinn Halldór Páll Gíslason eiga hvert um sig 9,11 prósent í Efstasundi, en félagið keypti Bílanaust árið 2013.