Jan Olszewski, fyrrverandi forsætisráðherra Póllands, er látinn. Hann andaðist á hersjúkrahúsi í pólsku höfuðborginni Varsjá seint í gærkvöldi. Hann varð 88 ára.
Olszewski gegndi embætti forsætisráðherra landsins í um hálft ár, frá desember 1991 til júní 1992.
Hann var lögfræðingur að mennt og íhaldssamur í skoðunum. Samband hans og Lech Wałęsa, sem var forseti Póllands í forsætisráðherratíð Olszewski, var mjög stirt þar sem ásakanir um valdaránsáform gengu á víxl.
Hann gegndi þingmennsku á árunum 1991 til 1993 og aftur 1997 til 2005.
Fyrrverandi forsætisráðherra Póllands er látinn
Atli Ísleifsson skrifar
