Umfjöllun og viðtöl: Valur - KR 82-70 | Valur kláraði toppliðið

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Helena í leik með Val gegn Stjörnunni.
Helena í leik með Val gegn Stjörnunni. vísir/vilhelm
Valur tók á móti KR í Origo-höllinni í kvöld í Domino’s deild kvenna. Leikurinn var hluti af 17.umferðinni sem fór fram í kvöld. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik tók Valsliðið öll völd á vellinum í þeim síðari og unnu að lokum góðan sigur, 82-70.

 

Það var KR sem byrjuði töluvert betur í leiknum en eftir að Valskonur skoruðu fyrstu körfuna tók KR 14-0 sprett og komst í 14-2 en þá tók Darri Freyr Atlason þjálfari Vals leikhlé og lét sitt lið heyra það. Það virkaði augljóslega því liðið kom mikið grimmara til leiks og náði að minnka muninn niður í 3 stig fyrir lok leikhlutans, staðan eftir fyrsta leikhluta, 18-21 fyrir gestunum.

 

Í öðrum leikhluta náði KR að slíta sig aftur frá Val og gestirnir komust mest 9 stigum yfir áður en Valur tók við sér og tók frábæran 10-0 kafla og komust yfir í leiknum, 32-31. Liðin skiptust á körfum undir lok fyrri hálfleiks en staðan í hálfleik var 38-39, gestunum úr Vesturbæ í vil.

 

Fyrstu mínúturnar í síðari hálfleik voru eins og undir lok fyrri hálfleiks en liðin héldu áfram að skiptast á körfum þar til Valur tók öll völd á vellinum þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum. Þær leiddu að loknum þriðja leikhluta, 63-55.

 

KR reyndi að taka áhlaup í byrjun fjórða leikhluta en náðu þó aldrei að stoppa Valsliðið og þá sérstaklega Helenu Sverrisdóttir undir körfunni og því var fljótt nokkuð ljóst að Valur myndi klára þennan leik. KR liðið náði að minnka muninn í 5 stig þegar 8 mínútur voru eftir en þá kom Valsliðið sterkt aftur og keyrði yfir KR. Þær leiddu með 12 stigum þegar 5 mínútur voru eftir og héldu þeirri forystu þar til leiknum var lokið. Lokatölur 82-70 og frábær sigur hjá Val.

Af hverju vann Valur?

 

Einfalt svar. Helena Sverrisdóttir. Þessi leikmaður er gjörsamlega mögnuð eins og flestir ef ekki allir körfuboltaáhugamenn gera sér grein fyrir. Hún gaf tóninn snemma leiks og það var klárt mál að hún ætlaði að vinna þennan leik fyrir Val.

 

Að auki er breiddin mikil í Val og þær gátu róterað liðinu sínu betur heldur en KR.

 

Hverjar stóðu upp úr?

 

Fyrrnefnd Helena var klárlega besti maður vallarins. Hún endaði á því að skora 33 stig, taka 14 fráköst og gefa 6 stoðsendingar. Næst á eftir henni kom Heather Butler en hún skilaði 17 stigum og 7 stoðsendingum.

 

Hjá gestunum í KR var Kiana Johnson stigahæst eins og oft áður en hún skoraði 21 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Orla O’Reilly kom næst á eftir henni með 13 stig en hún hefur þó oft átt betri leiki en hún átti í kvöld.

 

Hvað gekk illa?

 

Þriggja stiga nýting Vals var ekkert til að hrópa húrra fyrir en þó verður að hrósa þeim fyrir það að hafa nýtt sér þá vel að fara inn í teiginn en þær áttu teiginn í kvöld.

 

Hjá KR-ingum gekk illa að eiga við bæði Helenu og Simonu Podesvovu sem voru öflugar undir körfunni. Sóknarleikur KR var einnig í vandræðum í síðari hálfleik og það er eitthvað sem Benedikt Guðmundsson þjálfari liðsins þarf að skoða.

 

Hvað gerist næst?

 

Valskonur eru á miklu skriði og hafa unnið 7 leiki í röð í deild og fá næst botnlið Breiðabliks í heimsókn eftir viku. Það er erfitt að sjá eitthvað annað en sigur þar hjá heimaliðinu.

 

KR fær aftur á móti Snæfell í heimsókn í hörkuleik í DHL-höllina næstkomandi miðvikudag.

Benni Gumm: Ég er hvorki vitleysingur né veruleikafirrtur

 

Benedikt Guðmundsson þjálfari KR var að sjálfsögðu svekktur eftir tap liðsins gegn Val en var samt sem áður mjög ánægður með baráttuna hjá sínu liði.

 

„Það var ýmislegt sem gekk í þessum leik. Ég segi þetta ekki oft eftir tap en ég er ógeðslega ánægður með mitt lið í þessum leik. Við töpum hérna með 12 stigum en þrátt fyrir það sýnum við frábæra baráttu.”

 

„Það kannski gekk ekki allt upp en stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir frammistöðuna í kvöld.”

 

Hann segist ekki vera neinn vitleysingur og veit það að til að vinna lið eins og Val þarf mjög mikið að ganga upp.

 

„Þetta er svolítið tvíþætt, keppnismaðurinn í mér er drullusvekktur með tap en ég er samt enginn vitleysingur og ekki veruleikafirrtur heldur. Ég veit hvað við erum að eiga við hérna og það vita allir að Valur er að fara klára þetta mót.”

 

„Þær tapa örugglega ekki mörgum leikjum, mesta lagi einum og þetta er frábært lið sem við erum að eiga við og Helena er bara svo mörgum númerum fyrir ofan þessa deild að það hálfa væri hellingur en við reyndum og þegar upp er staðið gætum við verið eina liðið sem vinnur Val með Helenu innanborðs þegar tímabilið verður gert upp.”

 

Það er mikil breidd í liði Vals og Benni yrði alls ekkert hissa ef Valur myndi hreinlega vinna alla titlana sem eru í boði í ár.

 

„Það er endalaus breidd hjá þeim. Þetta eru allt stelpur sem hafa sannað sig og eru hörkugóðar. Frábær metnaður í Val og það er búið að setja saman alveg drullugott lið með gríðarlega efnilegan þjálfara í Darra þannig það er allt til alls til að hreinlega vinna allt sem er í boði. Taka eitt grand slam,” sagði Benni að lokum.

 

Darri Freyr: Það geta fullt af liðum stoppað okkur

 

Darri Freyr Atlason þjálfari Vals var gífurlega ánægður með sitt lið eftir sigurinn á KR í kvöld.

 

„Við byrjum leikinn mjög illa í kvöld, kannski einhver bikarþynnka en svo náðum við að pikka upp varnarlega og stoppa í götin og fundum lausnir í sókninni. Það var fullt af einvígjum maður á mann sem hentaði Helenu vel.”

 

„Ég verð eiginlega að hrósa mínu liði því það er rosalega erfitt fyrir afreksíþróttamenn að taka aftursætið (backseat) fyrir aftan Helenu og spila upp á besta möguleikann til að vinna og ég verð að hrósa mínu liði fyrir rosalega agaðan sóknarleik í seinni hálfleik þar sem við erum einfaldlega að gera það sem virkar og það er líklega stærsti þátturinn í þessum sigri og þetta gera meistarar.”

 

Hann og Helena fengu bæði tæknivillu í fyrri hálfleik fyrir að kvarta í dómurum leiksins. Honum finnst rosalega athyglisvert hvað Helena fær fá víti.

 

„Mér finnst rosalega athyglisvert að Helena tekur tuttugu tveggja stiga skot alveg við körfuna en hún fær ekki eina skotvillu í leiknum. Hún er tveir af tveim á vítalínunni sem var útaf einhverri fimmtu liðsvillu utan á velli.”

 

Helena skilar samt sem áður yfir 30 stigum og Darri var gífurlega ánægður með bæði hana og lið sitt.

 

„Auðvitað er ég sáttur með hana og liðið í heild sinni sem spilar vel upp á hana og gera hlutina auðveldari fyrir hana. Hún fær boltann í einvígjum sem henta henni og stöður sem henta henni vel. Þetta er liðssigur þrátt fyrir yfir 30 stig frá henni.”

 

Darri var síðan spurður að lokum einfaldlega hvort eitthvað lið í deildinni gæti stoppað Valsliðið.

 

„Já við erum búnar að tapa 7 leikjum þannig það eru fullt af liðum sem getað stoppað okkur en við þurfum bara að einbeita okkur að okkur sjálfum. Núna er okkar áskorun að vera áfram hungraðar. Við þurfum að spila af örvæntingu í hverjum einasta leik. Þetta er ótrúlega þétt deild, svaka pakki frá fyrsta sæti niður í fimmta og þú vilt ekki renna til og misstíga þig því þá gæti það hlaðið upp á sig fljótt,” sagði Darri Freyr að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira