Miðjumaðurinn snjalli, Andrea Mist Pálsdóttir, hefur verið lánuð frá Pepsi-deildarliði Þórs/KA til austurríska úrvalsdeildarliðsins FFC Vorderland og mun hún því spila í Austurríki í vetur.
Lánssamningurinn er til þriggja mánaða og verður Andrea Mist því mætt aftur til Íslands þegar Þór/KA hefur leik í Pepsi-deildinni þann 3.maí næstkomandi en þá heimsækja Norðankonur Val í stórleik 1.umferðar.
Vetrarhlé er á deildinni í Austurríki um þessar mundir og situr Vorderland í 7.sæti af þeim 10 liðum sem leika í deildinni.
Andrea er 21 árs gömul en hún hefur verið í lykilhlutverki í liði Þórs/KA undanfarin ár. Hún hefur leikið tvo A-landsleiki og hefur verið viðloðandi æfingahópa landsliðsins að undanförnu en hún á 30 leiki fyrir yngri landslið Íslands.
Hún er þriðji leikmaðurinn sem fer erlendis frá Þór/KA frá síðustu leiktíð en áður höfðu þær Anna Rakel Pétursdóttir og Sandra María Jessen haldið utan; Anna Rakel samdi við sænska úrvalsdeildarliðið Linköpings en Sandra María við þýska úrvalsdeildarliðið Bayer Leverkusen.
