Vísir hefur tekið saman nokkrar staðreyndir um króatíska landsliðið og má finna þær hér fyrir neðan.
- Svona komst Króatía á HM 2019 -
Króatíska landsliðið tryggði sér sæti á HM 2019 með að vinna Svartfjallalandi í umspili um laust sæti á mótinu.
Króatía gerði út um þetta í fyrri leiknum sem liðið vann 32-19 á heimavelli. Svartfjallaland vann heimaleikinn fimm dögum síðar með einu marki, 32-31, en var aldrei nálægt því að vinna upp muninn.

Þetta er þrettánda heimsmeistaramótið í sögu króatíska landsliðsins eða síðan að landið fékk sjálfsstæði frá Júgóslavíu. Nokkrir Króatar voru í gullaldarliði Júgóslavíu á níunda áratugnum þar á meðal markvörðurinn Mirko Basic.
Fyrsta heimsmeistaramót Króatíu var einmitt HM á Íslandi 1995 þar sem liðið komst alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar fyrir Frökkum.
Besti árangur Króata á HM er þegar þeir urðu heimsmeistarar á HM í Portúgal 2013 en liðið vann þá 8 af 9 leikjum sínum og 34-31 sigur á Þýskalandi í úrslitaleiknum.
Króatía hefur alls unnið fimm verðlaun á HM, eitt gull (2003), þrjú silfur (1995, 2005, 2009) og eitt brons (2013).
- Síðasta stórmót Króata -
Króatar héldu Evrópumeistaramótið fyrir ári síðan en urðu að sætta sig við að missa af undanúrslitunum og enda í 5. sætið.
Króatar töpuðu aðeins tveimur leikjum á mótinu, 31-35 á móti Svíum í riðlakeppninni og 27-30 á móti Frökkum í milliriðlinum. Þeir unnu síðan Tékklandi 28-27 í leiknum um fimmta sætið.
Króatar urðu í fjórða sæti á síðasta HM eftir 28-25 tap í framlengdum leik á móti Noregi í undanúrslitum og 31-30 tap á móti Slóveníu í leiknum um bronsið.

Ísland hefur enn ekki tekist að vinna Króatíu á stórmóti. Þjóðirnar mættust í sjöunda sinn á EM í Króatíu fyrir ári síðan og Króatar unnu þann leik 29-22.
Tvö stærstu töp Íslands á móti Króatíu á stórmótum hafa einmitt komið í síðustu tveimur leikjum því Króatar unnu Ísland með 9 marka mun, 37-28, á EM 2016.
Króatar hafa unnið fjórar síðustu viðureignir þjóðanna og alls sex af sjö leikjum þeirra á stórmótum. Besti árangur íslenska liðsins er 26-26 jafntefli á EM í Austurríki 2010 en þá var Guðmundur Guðmundsson einmitt þjálfari íslenska landsliðsins.

Leikstjórnandinn Domagoj Duvnjak hjá Kiel er þekktasti leikmaður liðsins en hann er fyrrum besti handboltamaður heims og var valinn í úrvalslið síðasta heimsmeistaramóts. Duvnjak er orðinn þrítugur og er bæði leikjahæstur og markahæstur í króatíska hópnum.
Aðrir öflugir leikmenn eru sem dæmi Luka Cindric, leikstórnandi pólska liðsins Vive Kielce og vinstri hornamaðurinn Manuel Strlek sem með Telekom Veszprém í Ungverjalandi.
Það má heldur ekki gleyma Luka Stepancic, örvhentri skyttu frá Paris Saint Germain eða reynsluboltanum Zlatko Horvat sem spilar í hægra horninu hjá RK Zagreb.
Í leiknum á móti Íslandi á EM í fyrr þá var Luka Cindric markahæstur með sjö mörk og 4 stoðsendingar en hann var þá valin maður leiksins.

Þjálfari Króatíu er hinn gamalreyndi Lino Cervar. Cervar er orðinn 68 ára gamall og hefur tvisvar tekið að sér þjálfun króatíska landsliðsins. Hann þjálfaði landsliðið fyrst á árunum 2002 til 2010 og gerði Króatíu meðal annars að heimsmeisturum árið 2003 og Ólympíumeisturum 2004.
Cervar tók síðan aftur við landsliðinu í mars árið 2017 og Evrópumótið í fyrra var hans fyrsta mót eftir það.
Undir stjórn Lino Cervar þá komust Króatar þrisvar sinnum í úrslitaleik HM og tvisvar sinnum í úrslitaleik EM auk þess að spila til úrslita á ÓL í Aþenu 2004.
Króatía hefur unnið sex verðlaun á stórmótum undir stjórn Lino Cervar, tvenn gullverðlaun og sex silfurverðlaun.