Barein er búið að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum en Aron er engu að síður mátulega kátur með frammistöðu liðsins til að byrja með á heimsmeistaramótinu. Vísir ræddi við hann eftir tapið á móti Spáni.
„Ég er bara nokkuð sáttur við þessa byrjun. Þessir líkamlegu burðir hinna liðanna eru erfiðir. Við vorum að bera of mikla virðingu fyrir þeim og dómararnir sömuleiðis. En, mér fannst við ná að halda haus og vera þéttir,“ sagði Aron.
„Inn á milli komu því miður fimm til tíu mínútna kaflar í hvorum hálfleik þar sem að við vorum að henda boltanum ódýrt frá okkur. Ef menn eru að drippla fyrir framan spænsku vörnina án þess að fara á ferðina lokarðu á allar sendingaleiðir. Ég er búinn að tala um þetta við hægri skyttuna mína í mánuð, en svona er þetta,“ sagði Aron og brosti.
Aron tók við liðinu fyrir hálfu öðru ári og segist hjá bætingu á spilamennskunni jafnt og þétt.
„Klárlega. Við lentum í smá skakkaföllum með meiðsli í undirbúningnum og missum svo mann út fyrir mótið og sá þriðji meiddist í leiknum. Æfingabúðirnar í Austurríki gengu vel. Það eru framfarir í leik okkar og stígandi í spilamennskunni. Ég er nokkuð ánægður með vörnina og eftir að við fengum besta leikmanninn inn hefur sóknarleikurinn orðið betri,“ sagði Aron sem viðurkennir að dagurinn í dag er sérstakur.
„Íslenska liðið spilaði frábærlega á móti Króatíu en annras var það mjög gott. Það verður sérstakt að mæta íslenska liðinu og líka fyrir strákana og Guðmund því í þessu tilfelli höfum við Guðmundur þjálfað bæði liðin. Það verður sérstakt,“ sagði Aron Kristjánsson.