Sigríður Margrét Oddsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri hjá Lyfju hf. Hún tekur við af Sigurbirni Gunnarssyni sem óskaði nýverið eftir að láta af störfum eftir tólf ára starf.
Fyrr í vikunni var greint frá því að Sigríður Margrét hefði látið af störfum sem framkvæmdastjóri Já.
Í tilkynningu kemur fram að Sigríður Margrét hafi víðtæka reynslu úr íslensku atvinnulífi og tekið virkan þátt í störfum fyrir hagsmunafélög á vegum atvinnulífsins.
„Sigríður hefur starfað sem framkvæmdastjóri um árabil og setið í stjórnum félaga. Hún situr í stjórn Viðskiptaráðs Íslands og er jafnframt formaður nýsköpunarhóps ráðsins. Enn fremur situr hún í skólanefnd Verzlunarskóla Íslands. Sigríður er með B.Sc. gráðu í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Akureyri og hefur hún einnig sótt stjórnendanámskeið hjá IESE Business School og Harvard,“ segir í tilkynningunni.
Lyfja hóf starfsemi árið 1996 og rekur í dag 40 apótek um allt land undir merkjum Lyfju og Apóteksins. Hjá félaginu starfa rúmlega 300 manns.

