„Við verðum að gera okkar besta í þeim leikjum sem eftir eru en þetta voru mikil vonbrigði,“ sagði keppnismaðurinn Dagur hundfúll við Tómas Þór Þórðarson eftir leik.
„Mér fannst við vera betri aðilinn í leiknum en fengum á okkur skrýtna dóma í lokin. Þeir gengu á lagið og ég ætla ekki að taka neitt af þeim en mér fannst við vera sterkari aðilinn en náðum ekki að klára það.“
Dagur vildi ekki nota átökin í síðustu leikjum sem afsökun fyrir því að þeir hafi ekki unnið leikinn í dag.
„Ég held að við séum í sama bát og Barein þar. Það var svolítið stress í þessu og slæm ákvarðanataka. Miðað við stöðuna sem var um miðjan síðari hálfleik fannst mér skrítið hvernig þeir komust aftur inn í leikinn.“