Þórsarar, Stjörnumenn og Njarðvíkingar unnu öll dramatískan sigur í Domino´s deild karla í gærkvöldi eftir frábærar endurkomur. Endurkoma Þórsara á móti Íslandsmeisturum KR verður verður aftur á móti örugglega sú sem mest verður talað um að kaffistofum landsins í dag.
Þetta var líka örugglega erfið nótt fyrir KR-inga, Valsmenn og Skallagrímsmenn en þessi lið voru öll búin að eiga mjög góðan leik í gærkvöldi og sáu tvö stig í hillingum. Körfuboltaleikur er hins vegar 40 mínútur og það nýtt andstæðingar þeirra sér.
KR-ingar voru með tögl og haldir í Þorlákshöfn og flestum fannst það bara formsatriði að klára leikinn. KR-liðið var þannig með 21 stigs forskot í upphafi lokleikhlutans þegar aðeins rúmar níu mínútur voru eftir.
Þórsararnir Kinu Rochford, Halldór Garðar Hermannsson og Nikolas Tomsick fóru allir á kostum á lokamínútum á meðan KR-liðið fraus algjörlega.
Á þessum síðustu níu mínútum náðu KR-ingar aðeins að skora fimm stig en á sama tíma var Kinu Rochford með 11 stig, Halldór Garðar Hermannsson skoraði 7 stig og gaf 3 stoðsendingar og Nikolas Tomsick var með 6 stig og 3 stoðsendingar. Davíð Arnar Ágústsson skoraði líka fimm stig eða jafnmörg stig og allt KR-liðið á þessum ótrúlega lokakafla.
KR-liðið skoraði ekki eitt stig á síðustu sex mínútum og 45 sekúndum og Þórsliðið endaði því leikinn á 22-0 spretti. Á þessum kafla klikkuðu KR-ingar á 9 skotum í röð og tókst ekki að koma sér einu sinni á vítalínuna.
Skallagrímsmenn voru yfir fram eftir öllum leik á móti Stjörnunni, með tuttugu stiga forystu í hálfleik, 56-36, og 21 stigs forystu þegar 17 mínútur voru eftir. Stjarnan vann hins vegar restina af leiknum með 35 stigum og tryggði sér sigurinn.
Bandaríski bakvörðurinn Brandon Rozzell tók yfir leikinn í Borgarnesi en hann var „bara“ með 8 stig og 4 stoðsendingar eftir 26 mínútna leik. Rozzell var með 20 stig og 3 stoðsendingar á síðustu fjórtán mínútunum sem Stjörnumenn unnu 45-14.
Á Hlíðarenda náðu Valsmenn mest ellefu stiga forskoti á móti toppliði Njarðvíkur þegar aðeins níu mínútur voru eftir. Á þessum lokamínútum sýndu Njarðvíkingar hins vegar styrk sinn og tókst að landa sigri.
Jeb Ivey var með 13 stig á lokakafla leiksins og Elvar Már Friðriksson skoraði tíu stig. Njarðvíkingar unnu þessar níu mínútur með fimmtán stigum
Endurkomukvöldið mikla í Domino´s deildinni 17. janúar 2019:
Leikur Þórs og KR í Þorlákshöfn
KR með 21 stigs forystu í byrjun fjórða (83-62
Þór vann síðustu 9:30 33-5 (+28)
Þórsliðið vann leikinn 95-88
Leikur Skallagríms og Stjörnunnar í Borgarnesi
Skallagrímur með 21 stiga forystu 17 mínútum fyrir leikslok (63-42)
Stjarnan vann síðustu 17:00 52-17 (+35)
Stjörnuliðið vann leikinn 94-80
Leikur Vals og Njarðvíkur á Hlíðarenda
Valur með 11 stiga forystu í byrjun fjórða (65-54)
Njarðvík vann síðustu 9 mínúturnar 35-20 (+15)
Njarðvíkurliðið vann leikinn 90-86

