Verkefnið er ærið því Þjóðverjar verða vel studdir af smekkfullri 20.000 manna Lanxess-höllinni í kvöld en heimamenn ætla sér langt í mótinu.
„Spennustigið bara eykst. Maður verður alltaf spenntari og spenntari. Nú er maður kominn í þessa rosalegu höll hérna. Maður hefur fylgst með Final Four í gegnum árin þannig að þetta verður bara skemmtilegt,“ segir Elvar Örn.
„Við búumst við fullri höll af Þjóðverjum að baula á okkur þannig að við þurfum að vera sterkari í hausnum og spila okkar leik.“
Elvar hóf mótið sem einn af aðalmönnunum í sókn og vörn en í síðustu leikjum hefur hlutverk hans aðeins minnkað í sókninni en stækkað í varnarleiknum.
„Ég tek því hlutverki vel. Ég spila bara þar sem að Gummi segir mér að spila. Ég geri bara mitt besta og er bara sáttur að fá að spila á HM,“ segir Elvar hógvær að vanda.
Elvar Örn er mikill handboltaaðdáandi og hefur fylgst vel með stórmótum í gegnum tíðina. Á Facebook-síðu hans eru óborganlegar myndir af honum með stórstjörnum á borð við þýska hornamanninn Uwe Gensheimer og kollega hans í franska landsliðinu, Luc Abalo.
Myndirnar eru frá 2010 og 2011 þegar að Elvar var þrettán og fjórtán ára gamall en nú er hann 21 árs að fara að mæta þessum hetjum sínum.
„Það er gaman að fá að spila á móti þessum stjörnum sem að maður hefur litið upp til öll þessi ár. Þetta verður krefjandi verkefni,“ segir Elvar Örn Jónsson.
Næstu andstæðingar Elvars, og Elvar sjálfur......@handkastid @Seinnibylgjan pic.twitter.com/xsRL6TnHuZ
— Hrafn Erlingsson (@hrafnerlingsson) January 19, 2019