Í leik Stjörnunnar og KR í Domino's deildinni í byrjun desember óð Arnar inn á völlinn þegar leikurinn var í gangi til þess að mótmæla dómi.
Arnar fékk fyrir brotið tæknivillu en dómaranefnd KKÍ kærði atvikið til aga- og úrskurðarnefndar.
Nefndin hefur nú komist að niðurstöðu og það er að dæma Arnar í eins leiks bann.
Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að Stjarnan hafi lagt inn athugasemdir og krafist þess að kærunni yrði vísað frá þar sem almenna reglan sé sú að ákvörðun dómara leiks sé endanleg og bindandi.
Nefndin varð þó ekki við því og mun Arnar því missa af næsta leik Stjörnunnar sem er gegn ÍR á sunnudaginn, 6. janúar.
Á sama fundi aga- og úrskurðarnefndar var Aleks Simeonov, leikmaður Vals, dæmdur í eins leiks bann.
Simeonov fékk tvær óíþróttamannslegar villur í leik Vals og Skallagríms 10. desember og var því rekinn af velli. Eftir að hafa skoðað atvikið á upptöku komust dómararnir að því að þeir hefðu átt að dæma brottrekstravillu en ekki óíþróttamannslega villu í seinna skiptið og settu það í atvikaskýrslu sína frá leiknum.
Aganefndin komst að sömu niðurstöðu og dæmdi Simeonov í bann. Hann missir því af leik Vals og Hauka á sunnudag.
Úrskurðinn í máli Arnars í heild sinni má lesa hér.