Pizzarisinn, sem rekur um 25 útibú um land allt, er með 21 prósent markaðshlutdeild meðal viðskiptavina Meniga. Næst á eftir kemur kjúklingakeðjan KFC með um 10 prósent markaðarins og Subway með 7 prósent. Serrano kemur þar á eftir með 4 prósent markaðshlutdeild, hamborgarastaðirnir American Style og Hamborgarabúlla Tómasar með 3 prósent hlutdeild en aðrir minna.
Sjá einnig: Sala Domino's á Íslandi jókst um 5,5 prósent
Fram kemur á vef Meniga að gögnin samanstandi af meðaltölum allra þeirra sem nýta sér þjónustu fyrirtækisins, sem nálgast má í gegnum heimabanka stóru bankanna þriggja. Jafnframt er undirstrikað að um ópersónugreinanlegar samantektir sé að ræða og að þær byggi á því hvernig færslur flokkast í Meniga.
Costco með 8 prósent markaðarins
Gögnin benda að sama skapi til að meðalviðskiptavinur Meniga hafi varið næstum 610 þúsund krónum í matarinnkaup á liðnu ári, sem gerir um 4 prósent aukningu frá árinu 2017. Fólk fari að meðaltali fjórum sinnum í viku í matvöruverslun og stendur sú tala í stað frá fyrra ári að sögn Meniga. „Það hefur sýnt sig að þeir sem fara sjaldnar í matvöruverslanir, eyða minna að meðaltali í matvöru, en þeir sem eru tíðari gestir,“ segir í frétt Meniga.Þar er þess einnig getið að Bónus hafi sem fyrr mesta markaðshlutdeild í flokki matvöruverslana, eða um 27 prósent. Næst á eftir kemur Krónan með 19 prósent, sem gefur til kynna að verslunin sé að „sækja aðeins í sig veðrið“ eins og það er orðað. Þar á eftir koma Hagkaup með 11 prósent hlutdeild og Nettó og Costco með prósent hvor. Meniga tekur þó fram að mögulegt sé að aðrir vörurflokkar, á borð við snyrtivöru, eldsneyti og fatnað, geti skekkt myndina í einhverjum tilfellum. Til að mynda sé hægt að kaupa aðrar vörur en matvöru í verslunum á borð við Costco, Hagkaup og Nettó.
Nánar má kynna sér samantektina um markaðshlutdeildina á vef Meniga.