Innlent

Ferhyrndur hrútur með risahorn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ferhyrnt fé er í miklu uppáhaldi hjá frístundabónda á Hvolsvelli en slíkt fé er frekar sjaldgæft. Af fé bóndans fer hrúturinn Vafurlogi fremstur í flokki en hann er með mjög stór og stæðileg horn sem vekja mikla athygli þeirra sem sjá hann.

Í fréttunum í gær sögðum við frá hundinum Spora og Kjartani Benediktssyni á Hvolsvelli. Nú er komið að því að segja frá Kjartani og ferhyrnda fénu hans en hann er með nokkrar slíkar kindur í hesthúsahverfinu á Hvolsvelli, auk þess að vera með hænur. Hrúturinn Vafurlogi er mórauður og líklega með fallegustu ferhyrndu hrútum landsins enda teygja hornin sig í allar áttir.

Kindurnar hjá Kjartani elska það þegar hann kemur og gefur þeim brauð, barnabörnin Ylfa og Ýmir Jens Ívarsbörn aðstoða afa við bústörfin.

„Ég hef nú átt marga fallega hyrnda og þetta fé virðist verða eldra en margt af þessu ræktaða fé. Það koma alveg drekalömb undan þessu fé.“

En þú hefur gaman af hyrndu fé, Kjartan?

„Þetta er náttúrulega bara til gamans gert því þetta er náttúrulega hverfandi atvinnugrein. En þetta er svona eins og bara gæludýr hjá mér."

En er ekkert erfitt fyrir Vafurloga að hafa svona stór horn, t.d. þegar hann er að éta úr garðanum?

„Nei, það virðist ekkert há honum. Það er aftur ef hann kemur fram, þá þarf að saga þau og svona snyrta þau. Svo hann lendi ekki í vandræðum með að éta af jörðinni.“

Vafurlogi er ekki nema veturgamall og því líklegt að hornin eigi eftir að stækka enn frekar á næstu árum.

Vafurlogi vígalegur.Mynd/magnús hlynur hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×