Erlent

Danska þingið samþykkir að vista erlenda glæpamenn á eyju

Kjartan Kjartansson skrifar
Við ferjuaðsiglinguna að Lindholm-eyju þar sem ætlunin er að vista útlendingar sem hafa lokið afplánun dóma.
Við ferjuaðsiglinguna að Lindholm-eyju þar sem ætlunin er að vista útlendingar sem hafa lokið afplánun dóma. Vísir/EPA
Fjárveiting til þess að vista erlenda glæpamenn á lítilli eyju var samþykkt í danska þinginu í dag. Áformum dönsku ríkisstjórnarinnar hefur verið mótmælt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og frá sveitarstjórnum á staðnum.

Ætlunin er að senda allt að hundrað manns sem hafa afplánað fangelsisdóma en ekki er talið öruggt að vísa úr landi af ótta við pyntingar eða aftökur í upprunalandi þeirra út í Lindholm-eyju í sveitarfélaginu Vordingborg. Fólkið hefur hlotið fangelsisdóma fyrir allt frá manndrápum og nauðgunum til vægari brota, að sögn Reuters.

Aðstaðan á eyjunni á að vera tilbúin árið 2021 og kosta 759 milljónir danskra króna. Á Lindholm hefur fram að þessu verið starfrækt rannsóknastöð á ýmsum sjúkdómum eins og svínaflensu, hundaæði og öðrum farsóttum.

Gert var ráð fyrir fjárveitingu til verkefnisins í fjárlögum ríkisstjórnarinnar sem voru samþykkt í dag. Þeir sem verða vistaðir á Lindholm mega yfirgefa eyjuna á daginn en verða að tilkynna um ferðir sínar og snúa þangað aftur að kvöldi.

Michelle Bachelet, mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, er á meðal þeirra sem hefur gagnrýnt áform dönsku ríkisstjórnarinnar. Hún sagði hafa alvarlegar áhyggjur af hugmyndinni í gær.

Sveitarfélögin á svæðinu eru heldur ekki uppnumin. Borgarstjórinn í Vordingborg segir að íbúar þar telji að þetta sé ekki lausnin á raunverulegum vandamálum. Í Kalvehave, þaðan sem ferjan til Lindholm fer, óttast að miðstöðin í Lindholm eigi eftir að koma niður á ferðamennsku sem bærinn reiðir sig á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×