Handbolti

Síðustu þrír Hafnarfjarðarslagir í Kaplakrika hafa unnist með einu marki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson er í aðalhlutverki hjá FH-ingum.
Ásbjörn Friðriksson er í aðalhlutverki hjá FH-ingum. vísir/daníel
Það má búast við mjög spennandi leik í Kaplakrika í kvöld þegar FH-ingar taka á móti nágrönnum sínum í Haukum í 12. umferð Olís deildar karla í handbolta.

Liðin gerðu jafntefli í æsispennandi leik fyrr í vetur og þá hafa leikir liðanna í Kaplakrika undanfarin ár verið gríðarlega spennandi.

Síðustu þrír Hafnarfjarðarslagir í Kaplakrika hafa þannig unnist með einu marki, tvisvar á sigurmarki og einu sinni eftir að Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, varði lokaskot Hauka.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Útsendingin hefst klukkan 19.15 og strax eftir leikinn tekur Seinni bylgjan við eða klukkan 21.15.

Frá því að FH komst aftur upp í deild þeirra bestu haustið 2008 hafa átta innbyrðisleikir liðanna unnist með minnsta mun. Sjö af þessum átta leikjum voru spilaðir í Kaplakrika en aðeins einn á Ásvöllum.

FH hefur ennfremur sex sinnum unnið Hauka með einu marki á þessu tímabili en Haukar hafa aðeins tvisvar sinnum unnið eins marks sigur á FH í deildarleikjum liðanna á þessum rúma áratug.



Síðustu þrír deildarleikir FH og Hauka í Kaplakrika

2017-18: FH vann með 1 marki (30-29)

 - Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sigurmark FH

2016-17: Haukar unnu með 1 marki (30-29)

- Guðmundur Árni Ólafsson skoraði sigurmark Hauka

2015-16: FH vann með 1 marki (28-27)

- Ágúst Elí Björgvinsson, markvörður FH, varði lokaskot Hauka



Deildarleikir FH og Hauka frá 2008 sem hafa unnið með minnsta mun

2017-18: FH vann með 1 marki í Kaplakrika (30-29)

2016-17: Haukar unnu með 1 marki í Kaplakrika (30-29)

2015-16: FH vann með 1 marki í Kaplakrika (28-27)

2014-15: FH vann 1 marks sigur í Kaplakrika (25-25)

2012-13: FH vann 1 marks sigur á Ásvöllum (22-21)

2010-11: FH vann 1 marks sigur í Kaplakrika (24-23)

2009-10: Haukar unnu 1 marks sigur í Kaplakrika (25-24)

2008-09: FH vann 1 marks sigur í Kaplakrika (29-28)

- Öll þrjú jafntefli liðanna hafa litið dagsins ljós á Ásvöllum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×