Srílanska þingið greiddi í gær atkvæði með traustsyfirlýsingu á Ranil Wickremesinghe, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, og sóttist eftir því að hann yrði settur aftur í embætti. Maithripala Sirisena, forseti ríkisins, setti hann af í október síðastliðnum og gerði fyrrverandi forsetann, Mahinda Rajapaksa, að nýjum forsætisráðherra. Þingið hefur nú í tvígang lýst yfir vantrausti á Rajapaksa.
Ekki er þó búist við því að atkvæðagreiðsla gærdagsins breyti nokkru um þá stjórnarskrárkrísu sem ríkir í eyríkinu. Sirisena hefur ítrekað sagt að hann muni ekki skipa Wickremesinghe aftur í embætti. „Jafnvel þótt hann njóti stuðnings allra þeirra 225 sem sitja á þingi.“
Búist er við því að hæstiréttur Srí Lanka úrskurði í vikunni um hvort Sirisena hafi brotið gegn stjórnarskránni þegar hann leysti upp þingið á dögunum.
