Daníel Freyr kom heim úr atvinnumennsku og hefur hvað eftir annað lokað marki Valsmanna á mikilvægum tímapunktum.
Seinni bylgjan fjallaði sérstaklega um frammistöðu Daníels Freys Andréssonar í sigri Vals á toppliði Haukum í stórleik ellefu umferðar.
Logi Geirsson, einn sérfræðinganna í Seinni bylgjunni vill að Daníel Freyr fái að fara með íslenska landsliðinu á HM í Þýskalandi og Danmörku í byrjun næsta árs.
„Munurinn á liðunum í dag var Daníel Freyr Andrésson. Ég er orðinn drulluleiður á því að það sé endalaust gengið fram hjá honum,“ sagði Logi Geirsson og bætti við: „Þá á ég við landsliðið til dæmis,“ sagði Logi.
„Ég sagði það í upphitunarþættinum að þetta yrði besti maðurinn. Þú sagðir Ásgeir Örn,“ sagði Logi og benti á Jóhann Gunnar Einarsson, hinn sérfræðinginn í settinu, og hélt svo áfram „en ég sagði Daníel“
„Sjáið bara hvað Daníel er að skila. Hvað er hann kominn með marga leiki í röð með 40 prósent markvörslu? Ég vil ekki að það sé gengið framhjá þessum gæja. Ég vil sjá hann fá tækifæri í landsliðinu. Hann er það góður,“ sagði Logi.
Það má sjá alla umfjöllun Seinni bylgjunnar um Daníel Freyr og markmannsmál landsliðsins hér fyrir neðan.