KA sameinaðist Þór undir merkjum Akureyrar eftir 2005/06 tímabilið og sambandið hélt út 2016/17 tímabilið þegar Akureyrarliðið féll úr efstu deild.
KA ákvað að spila aftur undir eigin merki á fyrravetur. KA-menn unnu sig upp úr Grill 66 deild karla í vor og spiluðu því aftur meðal þeirra bestu á þessu tímabili.
Þetta var fjórði útileikur tímabilsins hjá KA í Olís deild karla en liðið hafði enn ekki náð að vinna utan Akureyrar í vetur.
Liðið landaði aftur á móti sigri í Eyjum í gær. Það var fyrsti útisigur KA í úrvalsdeild karla frá 22. apríl 2006 eða í rúmlega 150 mánuði.
Alls liðu 4595 dagar eða 12 ár, sex mánuðir og 29 dagar á milli útisigra KA-manna í efstu deild.

Í liði KA fyrir tólf árum lék einmitt Magnús Stefánsson en hann lék með ÍBV-liðinu í gær. Aðstoðarþjálfari KA í útisigrinum í Garðabæ fyrir 150 mánuðum síðan var síðan Árni Stefánsson.
Sonur Árna, Stefán Árnason, þjálfar einmitt KA-liðið í dag, og er að gera mjög flotta hluti með nýliðina.
Magnús skoraði fjögur mörk fyrir KA-liðið í leiknum fyrir rúmum tólf árum og va þá þriðji markahæsti maður liðsins á eftir þeim Goran Gusic (8 mörk) og Ragnari Snæ Njálssyni (5 mörk). Magnús náði ekki að skora fyrir ÍBV í gær enda spilar hann aðallega í vörninni.