Erlent

Dæmdur í rúmlega fimm þúsund ára fangelsi

Atli Ísleifsson skrifar
Santos López Alonzo var meðlimur í uppreisnarhópnum Kaibil.
Santos López Alonzo var meðlimur í uppreisnarhópnum Kaibil. AP/Luis Soto
Dómstóll í Gvatemala hefur dæmt hermanninn fyrrverandi, Santos López Alonzo, í 5.160 ára fangelsi fyrir aðild sína að fjöldamorði á um tvö hundruð bændum árið 1982. Borgarastyrjöld stóð yfir í landinu þegar árásin var gerð.

Santos López Alonzo var meðlimur í sérsveitinni Kaibil. Hann var handtekinn í Bandaríkjunum og var framseldur til Gvatemala árið 2016.

Dómstóllinn mat það svo að López Alonzo hafi persónulega borið ábyrgð á 171 af samtals 201 morðum á bændunum. Hlaut hann þrjátíu ára fangelsisdóm fyrir hvert morð, samtals 5.130 ár. Að auki hlaut hann þrjátíu ára dóm fyrir þátt sinn í morði á barni eftir blóðbaðið sem það hafði orðið vitni að.

Refsingin er í raun einungis táknræn, þar sem hámarksfangelsisvist samkvæmt lögum í landinu er fimmtíu ár.

Blóðbaðið í Dos Erres, nærri landamærunum að Mexíkó, átti sér stað í desember 1982, þegar einræðisherrann Efrain Rios Montt stýrði landinu. Alls létu um 200 þúsund manns lífið eða hurfu sporlaust í borgarstríðinu í landinu sem stóð milli 1960 og 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×