Handbolti

Björgvin: Ég klúðraði þessu

Svava Kristín Grétarsdóttir skrifar
Björgvin í leik með ÍR.
Björgvin í leik með ÍR. vísir/vilhelm

Björgvin Þór Hólmgeirsson, leikmaður ÍR, fékk beint rautt spjald í leik ÍR gegn Stjörnunni í Olís-deildinni í kvöld.

Leikur ÍR hrundi eftir það en hann segir að það eigi ekki að skipta neinu máli hvort hann sé með eða ekki.

„25-25 þegar korter er eftir og þeir gengu á lagið. Við vorum bara lélegir.“

Björgvin Þór segir að það hafi ekki verið ætlunin að brjóta á Bjarka Má og að brotið hafi líklega litið illa út.

Björgvin segir sjálfur að þetta hafi ekki verið skynsamlegt hjá honum og að hann hafi einfaldlega klúðrað þessu.

„Hann hleypur aftan á mig, þetta leit örugglega mjög illa út. Ég ætlaði alls ekki að brjóta illa á honum, ætlaði bara að ná í boltann en ég flæktist eitthvað í fótunum á honum. Rautt er rautt og ég klúðraði þessu bara.“

„Auðvitað var þetta bara lélegt hjá mér, ég á að vita betur. Ég hefði bara átt að leyfa honum að fara og klára sitt færi.“

Það er þó áhyggjuefni hvernig liðið spilaði síðasta korterið og segir Björgvin það enga afsökun að hann hafi verið sendur útaf, það eigi ekki að skipta neinu máli hvort hann sé með eða ekki.

„Auðvitað er það áhyggjuefni, en það á ekki að skipta neinu máli. Ég er varla búinn að vera með í síðustu leikjum en þeir hafa verið að spila fáranlega vel, Arnar Freyr og Sveinn Andri sérstaklega. Það á ekki að skipta neinu máli hvort ég sé með eða ekki,“ sagði Björgvin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×