„Í mörgum tilfellum er það þannig að [þátttakan] er alls ekki góð og margir unglingar og börn eru í vandræðum með félagslega þátttöku og eru ekki að taka þátt í tómstunda- og frístundastarfi, segjast ekki eiga vini og það eina sem þau gera er að vera heima í tölvunni eða með fjölskyldunni sinni,“ segir Donata.
Donata segir þetta geta haft slæmar afleiðingar fyrir þennan hóp unglinga og valdi því að mörg þeirra einangrist. Þá hafi þetta einnig mikil áhrif á sjálfsmynd unglinganna þar sem þau ná ekki að mæta félagsþörf sinni.
Málefni hópsins er rætt á Fjölmenningarþingi Reykjavíkurborgar sem nú stendur yfir í Ráðhúsinu. Donata telur að rannsaka þurfi stöðu þessara unglinga og grípa þegar til aðgerða.
„Það er bara samfélagið sem þarf að taka á þessu saman, það eru skólar, fjölskyldur, stjórnmálamenn og allir,“ sagði Donata Honkowicz Bukowska.