Viðskipti innlent

Daði, Margrét og Sandra til liðs við Florealis

Atli Ísleifsson skrifar
Sandra Mjöll Jónsdóttur-Buch, Margrét Bessadóttir og Daði Hannesson.
Sandra Mjöll Jónsdóttur-Buch, Margrét Bessadóttir og Daði Hannesson. Mynd/Florealis
Lyfjafyrirtækið Florealis hefur ráðið þau Daða Hannesson, Margréti Bessadóttur og Söndru Mjöll Jónsdóttur-Buch til starfa.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu er haft eftir Kolbrúnu Hrafnkelsdóttur að sterkur vísindalegur bakgrunnur starfsmannanna geri félaginu kleift að stunda öfluga vöruþróun. Stefnt sé að hröðum vexti með auknu framboði af jurtalyfjum sem byggi á vísindalegum grunni og sókn á nýja markaði á Norðurlöndunum.

„Daði Hannesson, fjármálastjóri, er með M.Sc. gráðu í fjármálum frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn og M.Acc. gráðu frá Háskóla Íslands. Daði hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum en undanfarin 13 ár hefur hann starfað við fjármálastjórn og á fjármálamarkaði við fjármögnun og breytingar á eignarhaldi fyrirtækja.

Dr. Margrét Bessadóttir, gæðastjóri, ber ábyrgð á uppbyggingu gæðakerfis félagsins. Hún er með M.Sc gráðu í lyfjafræði og doktorsgráðu í líf-og læknavísindum frá Háskóla Íslands og hefur meðal annars stundað rannsóknir á sviði náttúruefna. Margrét hefur breiðan bakgrunn á sviði lyfjafræði bæði innan háskólasamfélagsins og lyfjaiðnaðarins. Hún hefur haldgóða þekkingu á gæðastjórnun í lyfjaiðnaði og vann meðal annars í gæðadeild lyfjafyrirtækisins Actavis.

Dr. Sandra Mjöll Jónsdóttir-Buch, vörustjóri, er lífeindafræðingur og með doktorsgráðu í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands. Hún stofnaði sprotafyrirtækið Platome og leiddi það þar til hún gekk til liðs við Florealis. Hún mun hafa yfirumsjón með því að byggja upp heildstæða og sterka vörulínu Florealis, allt frá fyrstu hugmynd til markaðar.“

Níu starfsmenn starfa nú hjá Florealis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×