Umfjöllun og viðtöl: KR - Haukar 69-61 | Nýliðarnir lögðu Íslandsmeistarana

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Kiana var frábær í liði KR í kvöld
Kiana var frábær í liði KR í kvöld frettabladid/sigtryggur
KR byrjuðu leikinn betur og komust 6-0 yfir í upphafi leiks. Um leið og Haukar skoruðu tóku þær svo 7-0 áhlaup og náðu forystunni. Liðin skiptust síðan á að leiða leikinn út fyrsta leikhlutann en Haukar unnu leikhlutann 17-19.

 

Vilma Kesanen leikmaður skoraði eftir fjórtán sekúndur í öðrum leikhluta og jafnaði metin. Áhorfendur þurftu hinsvegar að bíða tæpar fjórar mínútur eftir næstu körfu en þá smellti Eva Margrét Kristjánsdóttir niður þrist fyrir Hauka. Síðan fóru bæði lið að skora á fullu en leikhlutinn endaði 34-29 fyrir KR.

 

Kiana Johnson setti niður geggjaðan flautuþrist í lok annars leikhluta, Kiana fékk boltann á miðjum vellinum með þrjár sekúndur eftir og náði einhvern veginn að drippla að þriggja stiga línunni, taka skotfintu og skjóta þrist áður en flautan lét í sér heyra.

 

KR bættu í forystuna sína með flottum þriðja leikhluta. Þær komust nokkrum sinnum tíu stigum yfir en Haukar náðu alltaf að minnka muninn þá. KR héldu Haukum vel frá sér allan leikhlutann og staðan eftir þrjá leikhluta var 53-45 KR í vil.

 

Haukar voru nokkrum sinnum nálægt því að gera þetta að leik í fjórða leikhluta en þá náði Kiana Johnson alltaf að töfra fram stig hinum megin á vellinum. Leikurinn endaði 69-61 fyrir KR sanngjarn sigur gegn Íslandsmeisturunum.

 

 

Af hverju vann KR?

KR var bara betra liðið í dag. KR gátu alltaf búið til færi sóknarlega á meðan Haukar þurftu alltaf einstaklingsframtök.

 

Haukar réðu ekkert við Kíönu Johnson bandaríska leikmann KR, hún skoraði ekki bara 26 stig en hún gerði líka lífið töluvert auðveldara fyrir liðsfélaga sína sóknarlega.

 

Hverjir stóðu upp úr?

Kiana Johnson var frábær fyrir KR, hún náði alltaf að búa til opin skot fyrir liðsfélaga sína og skoraði 26 stig. Unnur Tara og Orla leikmenn KR voru að klára vel undir körfunni og náðu að berjast vel varnarlega.

 

Ástrós Lena Ægisdóttir leikmaður KR skilaði einungis fjórum stigum en hjálpaði liðinu sínu mikið í kvöld, spilaði virkilega góða vörn á einn af bestu leikstjórnendum deildarinnar.

 

Anna Lóa Óskarsdóttir var næst besti sóknarmaður Hauka í kvöld á eftir Lele. Hún var með nokkrar virkilega flottar sendingar og skoraði nokkrar körfur.

 

 

Hvað gekk illa?

Lele Hardy bandaríski leikmaður Hauka skoraði 27 stig í kvöld. Ég hefði samt viljað sjá meira frá henni þar sem hún þurfti að skjóta ansi oft til að skora þessi stig og var með fimm tapaða bolta. Varnarlega var hún ekki heldur góð eins og Ólöf kom inná í viðtalinu.

 

Sóknarleikur Hauka var hugmyndasnauður, lítil hreyfing án bolta. Þetta skilaði sér í 18 töpuðum boltum og fullt af erfiðum skotum þegar skotklukkan var að verða búin.

 

Ætli Benni verði ekki með skotæfingu á næstu æfingu þar sem KR voru með 17% þriggja stiga nýtingu í kvöld. Ótrúlegt að þær hafi komist í burtu með sigurinn með þessa tölfræði. 

 

Hvað gerist næst?

Landsleikjahlé. Tveir heimaleikir í Höllinni, fyrst á laugardaginn gegn Slóvakíu og síðan á miðvikudagskvöldið gegn Bosníu.

 

Ólöf: „Vona að þær sem þurfa að taka ábyrgð á sínu hlutverki geri það”

 

Tap í kvöld Ólöf. Afhverju finnst þér þið tapa leiknum?

 

„Það vantar alltaf herslumuninn hjá okkur. Það er greinilega eitthvað sem vantar uppá, við erum að tapa óhemju mikið af boltum, við erum að taka rangar ákvarðanir. Við erum ekki að klára vörnina okkar og það er eiginlega mikið sem þarf að laga. Við náum aldrei að klára leikina.”

 

„Við þurfum að fá hreyfingu án bolta, stelpurnar þurfa að vera óhræddar við að fá hann. Það koma alltaf tveir til þrír leikmenn á Lele þegar hún er með boltann svo hinar verða að hreyfa sig betur án boltans,” sagði Ólöf Helga Pálsdóttir Woods þjálfari Hauka aðspurð hvað Hauka liðið getur gert til að efna íslensku leikmenn liðsins betur sóknarlega.

 

Ólöf sagði í viðtali við Stöð 2 Sport fyrir leik að hún væri með hugmynd að því hvernig liðið hennar ætlaði að stoppa Kíönu Johnson leikmann KR.

 

„Það heppnaðist í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik vantaði herslumuninn í vörninni. Vörnin var ekki nóg góð, Lele var einmitt ekki nógu góð varnarlega. Mér fannst hún ekki koma nógu sterk inn í hjálpar vörnina og ég lét hana heyra það. Ég vona að þær sem þurfa að taka ábyrgð á sínu hlutverki geri það og við getum haldið áfram og gert betur næst.”

 

Landsleikjahlé núna, á ekki að æfa vel í því?

 

„Auðvitað, við nýtum okkur það til að æfa okkur vel.”

 

Benni Gumm: „Lífið er betra með sigur tilfinninguna”

Hvernig er að komast aftur á sigurbrautina Benni?

 

„Töluvert betur núna en fyrir leik. Tap tilfinningin venst aldrei þannig að síðustu dagar eru búnir að vera í rólegri kantinum. Það er gott að fá sigur tilfinnunga aftur, lífið er betra með sigur tilfinninguna heldur en hitt helvítið.”

 

„Við náðum fínum köflum. Við vorum að nota allan völlinn og keyra svolítið á þær. Þegar við náðum því þá tókum við góða spretti, þess á milli þá vorum við ekki að spila nægilega vel en ég er bara ánægðastur með að vinna þetta og halda Haukunum í 61 stigi. Ef við fáum á okkur 70 stig þá höfum við tapað þannig að þegar við erum að halda liðunum í kringum 60 þá erum við að vinna þannig að ég er ánægður með það,” sagði Benedikt Guðmundsson þjálfari KR eftir leik kvöldsins.

 

Þóra Kristín Jónsdóttir er landsliðsleikstjórnandi og einn af betri leikmönnum deildarinnar. KR voru oftast að láta Ástrós Lenu dekka hana en Ástrós er töluvert stærri en Þóra og er vön að dekka stærri leikmenn. Þóra skoraði óvenju fá stig í kvöld og má segja að það hafi heppnast vel að láta Ástrós dekka hana.

 

„Ég er búinn að gera þetta í báðum leikjunum. Fyrir mér þá er Þóra algjör lykilmaður í þessu liði, þegar hún spilar vel þá spilar Haukaliðið vel. Ég reyni að taka hana úr sambandi þegar ég get, Ástrós hefur gert það mjög vel í þessum tveimur leikjum á móti Haukunum.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira