Rithöfundurinn Auður Ava Ólafsdóttir hlaut í kvöld bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2018 fyrir skáldsöguna Ör. Verðlaunaathöfnin fór fram í norsku óperunni í Ósló þar sem þing Norðurlandaráðs er haldið.
Auður Ava hlýtur verðlaunin fyrir verk, sem að mati dómnefndar, einkennist af útsmognum húmor og leiftrandi fjörugu tungumáli en spyr jafnframt spurninga um lífið og dauðann.
Auður Ava og Sigurður Pálsson heitinn voru tilnefnd fyrir Íslands hönd til hinna virtu bókmenntaverðlauna þetta árið.
Auðar Ava hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsögu sína sem nú hefur verið þýdd á fjölda tungumála. Ör er fimmta skáldsaga rithöfundarins en hún hefur skrifað skáldsögur, leikrit, ljóð og þá er hún einnig textahöfundur hljómsveitarinnar Milkywhale.
Skáldverkið fjallar um aðalsögupersónuna Jónas Ebeneser sem er 49 ára fráskilinn karlmaður sem ferðast til stríðshrjáðs Evrópulands í þeim tilgangi að fyrirfara sér. Í sögunni varpar Auður fram áleitnum spurningum um hið mannlega ástand; lífið, dauðann og ástina.
Sjá einnig: Kona fer í stríð hlýtur Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs
Áður hefur Norðurlandaráð verðlaunað íslensku höfundana Ólaf Jóhann Sigurðsson (1976), Snorra Hjartarson (1981), Thor Vilhjámsson (1988), Fríðu Á. Sigurðardóttur (1992), Einar Má Guðmundsson (1995), Sjón (2005) og Gyrði Elíasson (2011).
Auður Ava hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Tengdar fréttir

Gyrðir fær bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs
Rithöfundurinn Gyrðir Elíasson hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir bók sína, Milli trjánna, en úrslitin voru tilkynnt fyrir stundu.

Sjón fær verðlaun Norðurlandaráðs
Skáldið Sjón hlýtur bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í ár fyrir bók sína Skugga-Baldur. Í dómi dómnefndar segir að Skugga-Baldur dansi á línunni milli bundins og óbundins máls. Í skáldsögunni séu íslenskar þjóðsögur, rómantísk frásagnarlist og töfrandi saga tvinnuð saman og tekist á við siðferðileg vandamál samtímans.

Auður Ava og Sigurður Pálsson fulltrúar Íslands
Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlands liggja fyrir.

Brotinn maður með bor í brotinni veröld
Heildstæð, sterk og mannleg skáldsaga sem á brýnt erindi inn í nútíma samfélag.