Hagnaður félagsins í sumar, þ.e. frá maíbyrjun fram til loka september, nam 1,2 milljörðum evra eða rúmlega 161 milljarði króna. Meðalverð flugmiðans var um 46 evrur sem er 3% lækkun frá síðasta sumri. Engu að síður jukust tekjur félagsins af hvers kyns viðbótum, eins og sætavali og auka farangursheimild, um 27% á milli ára.
Hækkandi olíuverð og harðnandi samkeppni hefur torveldað rekstur margra lággjaldaflugfélag á síðustu mánuðum; eins og Primera Air og Cobalt sem bæði lögðu upp laupana á síðustu vikum. Ryanair fór ekki varhluta af þessari þróun en eldsneytiskostnaður félagsins jókst um 22% á milli ára.
Kallar eftir samþjöppun
Forsvarsmenn Ryanair tilkynntu fyrr í þessum mánuði að fyrri afkomuspár félagsins myndu líklega ekki ganga eftir. Heildarhagnaður Ryanair fyrir yfirstandandi rekstrarár yrði líklega um 12% lægri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir. Þær spár standi þó og falli með því að flugfargjöld lækki ekki meira á árinu og að olíuverð haldist nokkuð stöðugt út árið.Haft er eftir framkvæmdastjóra Ryanair á vef breska ríkisútvarpsins að hann telji að komandi vetur gæti orðið mörgum lággjaldaflugfélögum „mjög, mjög erfiður.“ Nefnir hann sérstaklega Norwegian í þessu samhengi, sem greiðir 85 dali fyrir olíutunnuna. Í samanburði hefur Ryanair verið að greiða 68 dali fyrir tunnuna.
Hann segist jafnframt vona að fleiri lággjaldaflugfélög fari á hausinn. Það væri æskilegt fyrir Ryanair að samkeppni í greininni myndi minnka - auk þess sem fjöldi lággjaldaflugfélaga „eigi skilið að hverfa,“ eins og Michael O'Leary orðar það. Samþjöppun í fluggeiranum sé löngu tímabær.