„Ég var mættur þarna sjálfur þarna 16 mínútur yfir sjö. Við löbbum þarna um og það er allt slökkt og læst. Svo finnur einn ólæsta hurð á einhverjum milligangi. Þá var klukkan korter í átta. Þar kemur kona sem segist hafa boðað fundinn,“ segir Árni Guðmundsson, varaformaður hverfisráðs Grafarvogs en fundurinn átti að fara fram í Dalskóla í Úlfarsárdal og var hann haldinn fyrir íbúa Grafarholts, Grafarvogs og Úlfarsársdals.
Að sögn Árna mætti Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður hins þverpólitíska stýrihóps kjörinna borgarfulltrúa sem boðaði til fundarins, um klukkan átta, hálftíma eftir að fundurinn átti að hefjast.
Dóra Björt segir hins vegar í samtali við Vísi að það sé af og frá að hún og aðrir fulltrúar hafi mætt of seint á fundinn. Hún hafi verið mætt fyrir klukkan 19.30, það geti fjöldi manns staðfest.

„Þetta er náttúrulega ekki hægt. Ég er ennþá skjálfandi úr kulda,“ segir Árni.
Undir orð Árna tekur Trausti Harðarsson sem einnig var á fundinum.
„Þetta var bara móðgun og hneyksli að það sé ekki búið að undirbúa íbúarfund fyrir íbúa í 35 þúsund manna hverfi og þú mætir ekki einu sinni á réttum tíma á eigin fund. Maður vissi svo sem ekki hvort maður ætti að hlæja eða vera reiður,“ segir Trausti í samtali við Vísi.
Trausti segir að margir hverjir af þeim sem hafi ætlað að mæta á fundinn hafi yfirgefið svæðið og krafist þess að boðað yrði til nýs fundar sem hann segir að Dóra Björt hafi orðið við. Í stýrihópnum sitja auk Dóru Bjartar, Þorkell Heiðarsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Gunnlaugur Bragi Björnsson, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, Örn Þórðarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.